154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:06]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í þeirri fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi er forgangsraðað í þágu velferðar, uppbyggingar og efnahagslegs stöðugleika með það að leiðarljósi að draga úr spennu í efnahagslífinu, ná niður verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkun. Spár gera almennt ráð fyrir því að verðbólga haldi áfram að lækka á næstu mánuðum og verði komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrri hluta tímabils þessarar fjármálaáætlunar. Þrátt fyrir þennan árangur viljum við gera betur. Það er ljóst að það þarf að afla aukinna tekna, forgangsraða og sýna aðhald. Meðal annars þarf að standa straum af kostnaði við aðgerðir fyrir Grindavík vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga og mikilvæga nýgerða kjarasamninga. Við munum áfram sinna okkar samfélagslegu skyldum gagnvart íbúum Grindavíkur og styðja bæði við íbúa og fyrirtæki. Tekjuöflun til þess að mæta þessum aðgerðum mun fara fram í þeim geirum efnahagslífsins sem eru aflögufærir og má þar nefna áður innleiddar breytingar á tekjuskatti lögaðila sem hækkar tímabundið úr 20% í 21% á yfirstandandi ári. Einnig má nefna hækkun fiskeldisgjalds og endurskoðun veiðigjalda en þetta mun skila auknum tekjum til ríkissjóðs til að mæta áskorunum í efnahagslífinu.

Það er einnig nauðsynlegt að beita ákveðnum aðhaldsaðgerðum og fresta ákveðnum framkvæmdum í bili til að hemja þensluna en það er mikilvægt að taka það fram að það mun ekki verða á kostnað mikilvægrar grunnþjónustu og áfram verður unnið að því að efla velferð. Fjármálaáætlun tryggir fjármögnun þeirra aðgerða sem kynntar voru í byrjun mars og munu verða til að styðja við langtímakjarasamninga sem eru lykilatriði í baráttunni við verðbólgu og vexti. Þessar aðgerðir styðja ekki síst við þá hópa sem hafa fundið mest fyrir verðbólgunni og má þar nefna barnafjölskyldur og fólk í þröngri stöðu á húsnæðismarkaði. Aðgerðirnar munu m.a. skila sér í bættum aðstæðum á húsnæðismarkaði með áframhaldandi öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu og eflingu húsaleigubótakerfisins. Stutt verður við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum. Ríkissjóður mun leggja til 7–9 milljarða kr. í stofnframlög á ári.

Virðulegi forseti. Það getur verið mikil áskorun að ala upp nýja einstaklinga inn í samfélagið okkar og því er mikilvægt að koma sem best til móts við fólkið sem tekur það að sér. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi lagt áherslu á bætt kjör barnafjölskyldna. Þegar hafa stór skref verið stigin til að efla barnabótakerfið og hefur foreldrum sem eiga rétt á barnabótum fjölgað um 10.000 á fimm árum. Nú verður stuðningur við barnafjölskyldur aukinn enn með því að hækka barnabætur um 5 milljarða kr. auk þess sem greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar í þrepum á tímabilinu. Þegar kemur að aðgerðum til að draga úr ójöfnuði og fátækt eru börn sá hópur þar sem inngrip skilar hvað mestum árangri. Þýðingarmikil skref í áttina að jöfnuði meðal barna eru að tryggja þeim gjaldfrjálsar, næringarríkar máltíðir í skólanum; stórt réttlætismál sem dregur úr fátækt barna og jafnar aðstöðumun þeirra. Þetta er gríðarlega mikilvægt skref sem við í Vinstri grænum höfum lengi talað fyrir.

Meðal stærstu verkefna þessarar fjármálaáætlunar er nýtt örorkulífeyriskerfi sem mun auka útgjöld ríkissjóðs um 18 milljarða kr. á ársgrundvelli en hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti fyrir því með frumvarpi á Alþingi í mars. Þar eru löngu þarfar umbætur á örorkulífeyriskerfinu á dagskrá þar sem fólki verður gert auðveldara að ná heilsu, kerfið einfaldað, gert réttlátara og fjármagni beint til þeirra sem einungis hafa greiðslur frá ríkinu eða litlar aðrar greiðslur. Þannig munu breytingarnar verða þær umfangsmestu í áraraðir til að draga úr fátækt í íslensku samfélagi. Í síðustu fjármálaáætlun var gert ráð fyrir gildistöku laganna í janúar 2025 en þar sem vinnan var umfangsmeiri en gert var ráð fyrir og mikilvægt samráð við hagsmunaaðila tók lengri tíma var óhjákvæmilegt að fresta gildistöku fram í september 2025 til þess að stofnanir hefðu svigrúm og tíma til að innleiða breytingarnar. Vinnumarkaðsaðgerðir og vinnusamningar öryrkja eru tryggðir á tímabilinu og einnig eru fjárheimildir til útvíkkunar á sorgarleyfi tryggðar.

Lögð verður áhersla á að styðja við inngildingu innflytjenda í samfélagið, til að mynda með því að auka aðstoð við nemendur úr þeim hópi á öllum skólastigum og í íslenskukennsla fyrir fullorðna styrkt eins og nýleg heildarsýn ríkisstjórnarinnar í útlendinga- og innflytjendamálum kveður á um.

Önnur mikilvæg hagsbót fyrir barnafjölskyldur og fólk í þröngri fjárhagsstöðu er efling almenningssamgangna en fjárveitingar verða auknar til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og þannig unnið í haginn fyrir borgarlínu sem verður dýrmæt samgöngubót, bæði fyrir einkabílaeigendur og þau sem kjósa almenningssamgöngur. Vegakerfið fer ekki varhluta af nauðsynlegu fjármagni til framkvæmda, viðhalds- og vetrarþjónustu og mikilvæg mannvirki fyrir þjóðarhöll eins og betrumbætt fangelsi á Litla-Hrauni og ný þjóðarhöll eru tryggð. Þá er fjármagn aukið til mikilvægra stofnana samfélagsins eins og lögreglu og almannavarna.

Matvælaöryggi er gríðarlega mikilvægur þáttur í framtíðarsýn þjóðar sem byggir nánast allt sitt á innflutningi. Í áætluninni eru innviðir fyrir uppbyggingu kornræktar tryggðir með fjárfestingarframlagi til byggingar jarðræktarmiðstöðvar á Hvanneyri en fyrri fjármálaáætlun tryggði einmitt framlög til kornræktar. Vinnustaðanámssjóður verður efldur verulega til að fjölga tækifærum til starfsnáms. Dregið verður úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð með því að tryggja fjórar ferðir niðurgreiddar af Sjúkratryggingum á ári.

Virðulegi forseti. Það er áskorun að tryggja jafnvægi á milli hagstjórnarinnar og fjármögnunar á þeim mikilvægu verkefnum sem blasa við og mikilvægt er að árétta að við stöndum vörð um mikilvæg grunnkerfi og beitum ekki niðurskurði. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði fögnum því hvernig tekist hefur að standa vörð um velferð, barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu í þessari áætlun og lítum björtum augum til framtíðar þar sem jöfnuður og velferð allra verður í fyrirrúmi.