154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkið er rekið með 45 milljarða halla. Það er nú bara þokkalega stórt gat í mínum huga. Hér er gert ráð fyrir níu ára hallarekstri, m.a. mjög miklum hallarekstri á tímum þegar það er, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, mikil spenna á vinnumarkaði og víðar í hagkerfinu. Þetta er ekki ábyrg og skynsamleg leið til að reka ríkissjóð. Ég sagði hvergi í minni ræðu að eina ástæða þess að Seðlabankinn hefði haldið að sér höndum og ekki lækkað vexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi væri óvissa vegna ríkisfjármála. En hins vegar er einn af þeim lykilþáttum sem tilgreindir voru sérstaklega í yfirlýsingu peningastefnunefndar og er kannski sá þáttur sem stjórnvöld hverju sinni og ríkisstjórn hverju sinni getur hvað best haft áhrif á, hefur hvað mest vald yfir, ríkisfjármálin og áætlanagerð þeim tengdum. Mér finnst ekki fara vel á því að hæstv. ráðherra geri hálfpartinn lítið úr þessum þætti. Auðvitað hljótum við að taka það til okkar þegar Seðlabankinn — og þetta er ekki í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili sem Seðlabankinn nánast þarf að stafa það ofan í ráðherra þessarar ríkisstjórnar að vextir séu jafn háir og raun ber vitni, m.a. vegna þess að aðhaldsstigið hefur ekki verið nægt. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjármálaráð, óháður sérfræðingahópur skipaður samkvæmt lögum um opinber fjármál, þarf að stafa það ofan í ríkisstjórnina að hér sé verðbólga mikil og þensla mikil m.a. vegna þess, og þetta er ekki eina orsökin, að boginn hefur verið spenntur ofboðslega hátt í ríkisfjármálunum. Það er auðvitað m.a. vegna þess að hér eru mjög ólíkir flokkar að starfa saman. Stundum er þetta óttalegt skítamix, það næst kannski hvorki samstaða um að halda aftur af útgjöldum né að afla aukinna tekna (Forseti hringir.) og það setur auðvitað ákveðinn þrýsting á efnahagslífið. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að vera sammála mér um það.