154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í fjármálaáætluninni þá helmingast hallinn strax á árinu 2025 og fer niður í 25 milljarða og fer síðan hratt lækkandi þangað til að heildarjöfnuður verður jákvæður í lok tímabilsins. Frumjöfnuður var strax jákvæður í fyrra sem er held ég talsvert afrek í ljósi þess sem á undan var gengið. En í ræðu þingmannsins þá fór hann yfir að Samfylkingin hefði verið með miklar aðhaldstillögur og -umræður á síðustu árum og rak mig í nokkurn rogastans þar sem ég hef nú heldur heyrt verulegar útgjaldatillögur Samfylkingarinnar á því sviði á þessum árum. Vissulega verulegar tekjutillögur líka sem eru auðvitað um ekkert annað en að hækka skatta til að stækka hagkerfið. Það er ekki aðhald ef þú ætlar bæði að snarauka útgjöld og hækka þá enn þá meira skattana til að búa til auknar tekjur.

Í þessari fjármálaáætlun er verið að leggja til hækkun á veiðigjöldum sem er auðlind sjávar. Það er verið að leggja til hækkun og breytingar á gjaldtöku í ferðamálum sem er þá náttúruauðlindin. Það er verið að leggja til hækkun á gjaldi vegna fiskeldis sem er hin nýja auðlind sem fer hratt vaxandi og verður jöfn með tæknigreinum og sjávarútveginum á næstu árum. Það er verið að leggja til að taka upp alþjóðlega skatta sem hefur verið verulegur skortur á og það er strax gert á þessu ári. Það er verið að leggja til skattlagningu á fjármagnstekjur. En við verðum að segja alveg eins og er að á sama tíma ætlum við að hafa hófsaman útgjaldavöxt. Það er hófsamur útgjaldavöxtur vegna þess að við trúum í þessari ríkisstjórn á það hugtak, sem ég veit að Samfylkingin hefur verið að reyna að glíma við, sem við í Framsókn höfum lagt áherslu á sem er vinnan fyrst, síðan vöxtur og velferð. Vinna, vöxtur, velferð, það sé hin rétta leið til að skapa sterkara samfélag, öflugra samfélag sem standi undir öflugri velferð. Þessi fjármálaáætlun sýnir það einmitt í hnotskurn hvernig það er hægt (Forseti hringir.) án sérstakra dýfu, án sérstakra og gríðarlegra skattahækkana, leyfa (Forseti hringir.) í raun og veru hagkerfinu að vaxa hægt og rólega með því að vera með hófsaman útgjaldavöxt. — Afsakaðu, herra forseti.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á hinn afar hófsama ræðutíma hér.)