154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun áranna 2025–2029, það er sem sagt fyrir næsta ár, 2025, og næstu fjögur ár þar á eftir. Vissulega er gert ráð fyrir í lögum um opinber fjármál að það sé fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög. En þetta plagg nær ekki til þessa árs, það nær til næsta árs. Vissulega má lesa ákveðna langtímastefnu í ríkisfjármálum í þessu plaggi og er það uppfært frá árinu í fyrra en í dag er augljóst mál að plagg eða skjal eða áætlun sem tekur gildi á næsta ári mun ekki hafa áhrif í ár, svo það liggi fyrir. Og ef það verða kosningar í haust þá mun ný ríkisstjórn líklega koma með sína eigin fjármálaáætlun, fjármálastefnu og sjálfsögðu fjárlög: Það má kannski lesa úr þessu útfærslu næstu fjárlaga. Við búum í dag við fjárlög þessa árs sem er áætlun sem samþykkt var í desember í fyrra og er áætlun um fjármál ríkisins fyrir þetta ár. Þannig að ef við ætlum að spara tíma hér í þinginu þá getum við sparað tíma með því að tala um það vegna þess að það er óvíst hvort ríkisstjórnin lifi af haustið. Að sjálfsögðu verða kosningar á næsta ári, um haustið, og þetta gæti haft áhrif á fjárlög næsta árs.

Við fengum kynningu hæstv. fjármálaráðherra í gærmorgun og svo fengum við í fjárlaganefnd kynningu á þessari fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2009 og þar er þetta litað ansi rósrauðum litum. Það er og verður bullandi hagvöxtur og við ætlum að vaxa. Ríkisfjármálin áttu að minnka úr 44% af vergri landsframleiðslu í 41%. Það var lítið talað um verðbólguna hins vegar, ekki neitt. Verðbólga í dag er 6,8% og hefur farið hækkandi. 1. febrúar var hún 6,6% á ársgrundvelli, 1. mars var hún komin í 6,8%. Stýrivextir í dag eru 9,25%. Seðlabankastjóri hefur margoft óskað eftir aðstoð við að ná niður verðbólgunni, gert það í blaðaviðtölum og í ræðum. Það þurfi aukið aðhald í ríkisfjármálum og að öll aðstoð væri þegin, svo ég vitni í orð hans á síðasta ári, hann myndi þiggja alla aðstoð við að ná niður verðbólgunni.

Þessi fjármálastefna og stefna ríkisstjórnarinnar er að styðja við peningamálastefnu seðlabankastjórans en gerir ekki mikið meira en það. Það er alveg klárt mál að það er hægt að beita ríkisfjármálunum til að ná niður verðbólgunni hratt og örugglega ef vilji er fyrir hendi. Hvernig er það gert? Jú, það er gert með aðhaldi í ríkisútgjöldum og skattahækkunum. Það er hægt að gera það líka með skattahækkunum, taka peninga út úr kerfinu, alveg eins og Seðlabankinn er að gera. Hann hækkar stýrivexti svo bankarnir ávaxti sitt pund, sína peninga, í Seðlabankanum en fari ekki í útlán nema þeir láni á hærri vöxtum en stýrivextirnir. Þannig virkar kerfið. En varðandi þessi fjármálaáætlun, ríkisfjármálin og fjárlögin þá hef ég bent á það svo margoft, í umræðum um fjárlagavinnuna og í ræðum hér í þessum þingsal um fjárlagafrumvarpið fyrir þetta ár, að það væri ekki verið að nota ríkisfjármálin til að ná niður verðbólgunni. Það er mjög miður. Það sýnir algjört stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að ríkisfjármálunum. 9,25% vextir. Það mun ekki leiða til mikils hagvaxtar. Fyrirtækin eru ekki að taka mikið af lánum á þessum vöxtum og heimilin í landinu, húsnæðislántakendur, þurfa að borga gríðarlega fjármuni á hverjum mánuði í afborganir vegna hækkandi húsnæðislána. Mörg eru það heppin að hafa fasta vexti á lánum í ákveðinn tíma en það kemur að skilmálabreytingum þar sem þetta fer að bíta. Það er ákveðinn tímafrestur á því frá því að stýrivextir eru ákveðnir í 9,25% og þangað til að þeir fara að hafa áhrif. Það gerist hins vegar ekki í ríkisfjármálunum og það er mjög miður að ríkisfjármálunum hafi ekki verið beitt með aðhaldi í útgjöldum og skattahækkunum til að draga úr þenslunni, til þess að draga úr bólgunni sem er í verðlagi í landinu. Það verður einungis gert með því að draga saman í ríkisrekstri og taka peninga út úr kerfinu. Það eru of margir peningar að eltast við of fáar húseignir og of fáar vörur framleiddar eru í landinu og þar er húsnæðisliðurinn allra mikilvægastur. Vissulega á að fara að byggja þúsund íbúðir en það er engan veginn nóg.

Hæstv. fjármálaráðherra minntist á það fyrr í dag, ef ég skildi hann rétt, að við ættum að bera okkur saman við Noreg og Sviss. Stýrivextir í Sviss eru 1,5%. Stýrivextir í Noregi eru 4,5% og þeir hafa náð tökum á verðbólgunni. Við höfum ekki gert það. Vissulega höfum við orðið fyrir áföllum, sem er Grindavík og ástandið á Reykjanesskaga, sem hefur leitt til þess að við höfum þurft að auka ríkisútgjöld. Við þurftum lánsfjárheimild upp á 30 milljarða kr. svo að Þórkatla, fjárfestingarfélag sem stofnað var, gæti keypt íbúðir af Grindvíkingum. Við ráðum vel við að hjálpa Grindvíkingum, mjög vel. Við erum með miklu stærra hagkerfi, fimm sinnum stærra hagkerfi en þegar eldgosið í Vestmannaeyjum varð og 5.000 manns þurftu að flýja byggðarlagið. Það er líka búið að setja peninga í kjarasamninga. Það var gert ráð fyrir því í varasjóðnum. Við erum þegar búin að samþykkja ein fjáraukalög vegna Grindavíkur. Þetta er verðbólguhvetjandi.

Ég ætla að tala aðeins betur um Sviss og Noreg. Vissulega hafa milljarðamæringar í Noregi verið að flýja til Sviss út af lágum sköttum og miklum stöðugleika þar. En þetta eru ekki lönd sem við getum borið okkur saman við, ekki Sviss alla vega, að hluta til við Noreg en berum saman stýrivextina. Við erum með allt of háa verðbólgu og allt of háa stýrivexti og það að styðja einungis við peningamálastefnu Seðlabankans er ekki nægjanlegt. Við hefðum þurft að fara í róttækari aðgerðir til þess að ná verðbólgunni niður. Verðbólguhorfur, eins og kom fram í kynningu fjármálaráðuneytisins í gær, endurspeglast mjög vel í álagi á skuldabréfamarkaði til fimm ára. Það er viðvarandi hátt álag þar. Það sýnir að það er óvissa um þróun verðbólgunnar. Það verður vaxtaákvörðunardagur 8. maí næstkomandi og þá verður fróðlegt að sjá hvort vextir verði lækkaðir eða ekki. Það var ekki gert síðast. Það er ekkert sem bendir til þess að við séum að komast út úr viðvarandi verðbólgu. Við getum fest í verðbólgu sem er í kringum 6,5%, jafnvel upp í 7%, og það er mjög miður.

Varðandi aðhaldið sem var talað um í kynningunni í gær og stendur í þessu plaggi hér þá er mjög erfitt að henda reiður á það hvað það er. Jú, það á að spara 10 milljarða kr. vegna þess að það á að fresta gildistöku ákvæða frumvarps um öryrkja til 1. september 2025. Flokkur fólksins er á móti þessu frumvarpi og við vonum að það verði ekki að lögum, þetta starfsgetumat og þær hörmungar sem því fylgja fyrir öryrkja. En það breytir því ekki að það er verið að spara þarna 10 milljarða sem eiga að fara til öryrkja og þá á að nota til annarra verka. Að sjálfsögðu eiga öryrkjar rétt á að fá þennan pening með öðrum hætti, t.d. með minnkun á gríðarlegri kjaragliðnun sem hefur orðið á undanförnum árum og líka til hækkunar frítekjumarks. Það er réttindabarátta öryrkja. Það stendur í ákvæði í almannatryggingalögum, 62. gr., þó að þetta sé 69. gr. núna, að örorkubætur eigi að fylgja launaþróun eða vísitölu neysluverðs. Það hefur ekki verið gert. Hvað ætlar ríkið að gera? það? Þarna stendur skýrum stöfum á bls. 54 í þessari bók hérna, fjármálaáætlun, að það eigi að spara á kostnað öryrkja um 10 milljarða með því að fresta aðgerðum fyrir þá til 1. september á næsta ári.

Hvað hefur þessi ríkisstjórn líka gert? Jú, það á að leggja niður Múlalund. Ríkið ætlar að hætta að styðja starfsemi sem íslenska ríkið hefur staðið vörð um, meira að segja úti í Brussel, með bréfaskriftum, og tryggt að verndaður vinnustaður fyrir fatlaða fái að vera starfræktur á Íslandi. Það á að spara þar. Hverjar eru röksemdirnar sem maður fær að heyra og hefur heyrt í fjölmiðlum? Jú, það er vitnað í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að það megi ekki vera aðgreindir vinnustaðir. Ég hef lesið þann ágæta samning. Það stendur ekki neins staðar í þeim samningi í 27. gr. að það sé bannað að hafa aðgreinda vinnustaði. Það er hins vegar réttur til vinnustaða án aðgreiningar. Þetta misskilur ríkisstjórnin og telur að í þessu felist bann við því að hafa aðgreinda vinnustaði, verndaða vinnustaði. Það er bara rangt. Allir sem geta lesið sér til gagns samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sjá að það er ekki bann við aðgreindum vinnustöðum eða vernduðum vinnustöðum í þessum samningi. Þau ættu að lesa 27. gr. eina ferðina enn og lesa hana betur.

Þetta sýnir viðhorfið til fátækasta hluta samfélagsins sem hefur orðið fyrir gríðarlegri kjaragliðnun alveg síðan frá hruni. (Forseti hringir.) Það er siðferðið í þessu plaggi hér sem mun vonandi ekki taka gildi (Forseti hringir.) því vonandi verður komin ný ríkisstjórn næsta haust ef guð lofar. En alveg örugglega haustið 2025.