154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:09]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Nú sitjum við saman í fjárlaganefnd og það er komið víða við þar. Varðandi verðbólguvæntingar þá er það rétt að væntingar markaðarins hafa verið fullháar að mati margra og þannig hefur það verið mjög lengi hjá okkur. Verðbólgan hefur farið mjög hratt niður núna síðan í byrjun árs. Mig minnir að hún hafi verið 10,2% í byrjun árs 2023. Núna er hún í 6,8% um 15 mánuðum síðar. Hagstofan gerir ráð fyrir að hún verði komin í um 4% þegar líður á árið, undir lok árs. Það er alltaf hægt að segja að hún geti orðið þetta eða hitt, hún getur verið hvað sem er eins og kom kannski fram í máli hv. þingmanns. En þetta er spáin sem liggur fyrir. Væri það ekki bara góður árangur ef spá Hagstofunnar myndi rætast? Þetta hefur verið þróunin undanfarið.

Það sem mér finnst kannski vera í þessari fjármálaáætlun þegar við lesum efnahagskaflann og um þróun mála er að hún sýnir hvað hefur náðst ótrúlegur árangur á síðustu fáum árum miðað við þau efnahagsáföll sem við höfum gengið í gegnum hérna á síðustu fimm árum; WOW air, Covid, stríðið í Úkraínu, Grindavíkureldarnir. Þetta er ótrúleg staða sem hefur skapast hér á fimm árum. Og af því að við erum að ræða hinar breiðu strokur í ríkisfjármálunum í gegnum fjármálaáætlun til fimm ára, getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um það að við séum í grunninn bara á ágætisstað miðað við það sem kemur fram í gögnum í þessu plaggi, í stóru myndinni? Erum við ekki í rauninni bara á eftirsóknarverðum stað miðað við það sem við erum að sjá annars staðar í Evrópu, varðandi hagvöxt, framleiðni, framleiðni á vinnustund og allar þessar grunnhagtölur sem við erum að vinna með og snúa að samfélaginu?