154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:11]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ísland er ríkt land. Við erum með sennilega auðugustu fiskimið heims í hafinu í kringum Ísland, ótrúlega náttúrufegurð, mikil fallvötn. Við lifum á þessu. Við lifum á auðugustu fiskimiðum í heimi, gríðarlega fallegri náttúru, ferðamannaþjónustu, ferðamenn koma hingað til að skoða náttúruna og við lifum á álframleiðslu vegna rafmagnsins. Það eru nýjar atvinnugreinar að koma inn, fiskeldi og líka skapandi greinar, sem er alveg frábært. En það breytir því ekki að verðbólgan hefur hækkað frá 1. febrúar til 1. mars um 0,2%. Við erum ekki að ná tökum á verðbólgunni. Ég vil benda hv. þingmanni á það að ríkissjóður er rekinn með halla, það er búið að reka hann með halla síðan í Covid. Það er frétt í Heimildinni um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem lagt er mat á þróun ríkisfjármála í 80 mismunandi ríkjum í heiminum, þar á meðal Íslandi, og í skýrslunni er spáð talsvert meiri hallarekstri ríkissjóðs en gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun sem fjármálaráðherra lagði fyrir í gær og við erum að ræða hér. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er spáð halla sem nemur 2,1% af vergri landsframleiðslu. Gróflega reiknað er það um 95 milljarða halli á ári en hins vegar í fjármálaáætluninni, í því plaggi sem við erum að ræða hér, er bara gert ráð fyrir 49 milljarða halla. Það munar sem sagt 46 milljörðum á spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeir eru nokkuð góðir og þykjast kunna hagfræði, eru nokkuð klókir þar, og spá fjármálaráðuneytisins.

Annað sem er líka í þessu er að það er mikil hætta núna í heimsbúskapnum. Það er grein í The Financial Times í morgun um það að fjárlagahalli Bandaríkjanna gæti haft gríðarlegar afleiðingar fyrir heimsbúskapinn. Við erum að reka ríkissjóð með halla. Það er hættan. En Ísland er ríkt land. Það er mikil verðmætasköpun hérna. Og talandi um verðmætasköpun, í greinargerð með fjáraukalögum í desember kom fram að það væri hætta á því að það yrði minni framleiðni á þessu ári á mann. (Forseti hringir.) Þegar það gerist þá erum við að verða fátækari á mann. Það getur fjölgað hér upp í 600.000 og verið hagvöxtur en við erum að verða (Forseti hringir.) fátækari á mann, á hvern einstakling. Það er hætta sem er fyrir hendi. Það eru gríðarlegar hættur fram undan í efnahagsbúskap Íslands.