154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom víða við, maður nær því ekki á tveimur mínútum. En þetta grunnatriði sem við erum að ræða í fjárlaganefnd og víðar er þessi framleiðni og það sem við viljum oftast líta til er almennt framleiðni á vinnustund. Það sé raunverulega besti mælikvarðinn til að sjá hvernig okkur gangi, þ.e. hvað við fáum út úr hverri vinnustund. Ég held að það sé svolítið það sem við eigum að miða við og þess vegna er ég svolítið hvumsa núna. Allt síðasta ár, þetta hef ég áður tekið umræðu um í fjárlaganefnd, við notuðum töluverðan hluta af síðasta ári í að ræða um framleiðnivöxt í samfélaginu, vinnustundir og annað sem hafði þá verið um 1,3% í einhvern tiltekinn tíma. Síðan kemur í ljós að hagvöxtur 2022 var bara miklu meiri heldur en nokkurn tíma hafði verið spáð, hann var endurskoðaður fyrir stuttu síðan, það komu nýjar tölur, þetta var alltaf að þróast og nýjasta talan fyrir 2022 kom núna í mars og var 8,9% hagvöxtur. Það var mun meira heldur en hagvöxturinn 2022 hafði verið áætlaður þegar var unnið að fjárlögum í desember 2021, þá var hann áætlaður 5,3%. Síðan kemur líka í ljós að við erum færri heldur en við reiknuðum með, það kom líka fram í mars, held ég. Við vorum 14.000 færri, (Gripið fram í.) ekki 400.000 heldur 386.000 eða 387.000. Það þýðir að framleiðnivöxturinn á hverja manneskju í landinu var náttúrlega miklu hærri heldur en við reiknuðum með. Og þegar við lítum á þetta í samanburði við aðrar þjóðir, Norðurlöndin og aðrar þjóðir, þá er þetta bara á allt öðrum stað.

Við sjáum líka kaupmáttaraukninguna í landinu frá 2013 sem kemur fram í fjármálaáætluninni, þetta er ótrúleg þróun á ekki lengri tíma, frá árinu 2013, í þessu samfélagi. Það er rétt, þetta kemur ekki af sjálfu sér. Það hefur bara verið skynsamleg stjórnun á mörgu hérna, hvort sem er á fiskveiðum eða öðru. Við vorum heppin að hér voru miklir frumkvöðlar í orkuvinnslu í landinu og hugmyndafræði hennar fyrir 60 árum þegar menn komu henni af stað. Fiskeldið þessa dagana, hugverkaiðnaðurinn, ferðaþjónustan. Það þarf að hafa fyrir öllum hlutum. Það þarf að skipuleggja þá. Þeir gerast ekki af sjálfu sér. Þú getur verið með auðlindaríkt land (Forseti hringir.) en ef þú stendur ekki vel að því hvernig er stjórnað þá geturðu klúðrað því. Við þekkjum það, hvort sem það er (Forseti hringir.) Venesúela eða önnur lönd. Það er hægt að klúðra hlutunum þótt löndin séu auðlindarík.