154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Mér líður svolítið eins og hv. þingmaður sé að tala um fimm ára áætlanir í Sovétríkjunum. (Gripið fram í.) Þetta er fjármálaáætlun sem við erum að tala um og ríkisfjármálin — það er ekki guð almáttugur í íslensku hagkerfi. Ríkið þarf að skapa skilyrði fyrir fyrirtæki til að þau geti vaxið og aukið verðmætasköpunina. Það sem hefur verið drifkraftur í íslensku hagkerfi er fjölgun ferðamanna á Íslandi. Það hefur verið aðaldrifkrafturinn og drifkrafturinn eftir Covid var að ferðamennirnir fóru að koma aftur. Þeir eru ekki að koma af því að núverandi ríkisstjórn er við völd. Það er ekki ástæðan. Það er ágætt að hafa þakklætið þar sem þakklætið á að koma. Það er ekki ríkisstjórninni að þakka að það sé gríðarleg fjölgun ferðamanna í landinu, meira að segja sums staðar á landinu þykir mönnum nóg um og hafa viljað fara að takmarka komur skemmtiferðaskipa.

Það sem er grundvallaratriði og ríkisfjármálin geta haft áhrif á er verðbólgan, stýrivextirnir. Ef einstaklingur er með húsnæðislán þarf hann að búa við 10–11% vexti á húsnæðisláni sínu. Fyrirtæki þurfa líka að gera það. Það er það sem við getum haft áhrif á. Þessi skilyrði, lífsskilyrði fólks og fyrirtækja í rekstri, eru algerlega óásættanleg og það er þar sem ríkisfjármálin þurfa að koma að.

Annað: Við erum lítið hagkerfi og þegar fjölgar svona mikið ferðamönnum þá hefur það náttúrlega mikil áhrif á hagkerfið af því við erum svo fá. Hagkerfið í Skandinavíu er einfaldlega allt öðruvísi. Þetta eru miklu, miklu stærri skip og til að hafa áhrif þar er ekki nægjanlegt að það komi 100.000 fleiri ferðamenn. Það er mikilvægt að horfa líka á það að það eru hagkerfi sem byggja ekki á ferðamannaþjónustu. Við höfum verið að byggja upp ferðamannaiðnaðinn sem er mjög gott, en við eigum ekki að einbeita okkur að honum. Þetta eru láglaunastörf. Það kom klárlega fram í tölum í greinargerðinni með fjáraukalagafrumvarpinu í desember að það væri líklegt að það myndi verða minni framleiðni á mann og það er gríðarlega mikilvægt. Við værum enn þá að slá með orfi og ljá ef við myndum ekki hugsa um framleiðni í landbúnaði. Við verðum að hugsa um framleiðni vegna þess að það er það sem gerir lífið okkar léttara, það er það sem gerir samfélagið ríkt. Það er framleiðni og aftur framleiðni. (Forseti hringir.) En það er ekki ríkinu að þakka að hér komi fleiri ferðamenn. Það er mjög mikilvægt að taka á þeim vanda sem er verðbólgan, (Forseti hringir.) stýrivextir og kjör þeirra lægst settu og verst settu í íslensku samfélagi, öryrkja og aldraðra. Það er þessi ríkisstjórn ekki að gera.