154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Stærsta spurningin sem við eigum að spyrja okkur á þessum tímum gríðarlegra samfélagsbreytinga og óvissu er: Hvert viljum við stefna? Hvernig grípum við tækifæri framtíðarinnar og búum okkur undir áskoranir hennar? Svarið við þessari spurningu ætti að vera umlykjandi í þessu plaggi sem um ræðir núna en það er engin skýr sýn. Það er engin áætlun, bara handahófskenndar aðgerðir með óljósa von um árangur.

Til að stuðla að velsæld til framtíðar þarf að hugsa fram á veginn og tryggja að við völd sé fólk sem skilur mikilvægi þess að taka þátt í mótun framtíðarinnar en fljóti ekki eins og dauðir fiskar í straumi framfara. Píratar hafa skýra sýn, sýn á hvaða breytingar eru nauðsynlegar til að undirbúa þjóðfélagið fyrir tækniframfarir sem munu hafa gríðarleg áhrif á okkur öll. Fjölmörg störf munu breytast, önnur hverfa og ný koma í staðinn en þetta umrót krefst þess að við endurskoðum og uppfærum menntakerfið í heild sinni og stuðlum að raunverulegu aðgengi allra að menntun á öllum stigum lífsleiðarinnar, óháð aðstæðum og óháð efnahag. En umfram allt þarf á þessum miklu óvissutímum að stuðla að stöðugleika í lífi fólks með því að tryggja að allir hafi aðgang að húsnæði við hæfi, heilbrigðisþjónustu og hafi trygga afkomu. Þegar grunnurinn er tryggur hefur fólk tækifæri og frelsi til að vaxa og dafna á eigin forsendum í síbreytilegum heimi. Samfélagið allt nýtur góðs af því.

Píratar hafa skýra sýn í umhverfismálum. Áskoranir í loftslagsmálum krefjast metnaðarfullra aðgerða og hugrekkis til að framkvæma þær og fjármagna að fullu. Til að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra þjóða þarf brýnar aðgerðir langt umfram áform núverandi ríkisstjórnar, enda neitar hún að viðurkenna rót vandans; hagkerfi sem hyglir gróðasjónarmiðum stórfyrirtækja umfram samfélagslega ábyrgð. Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja verða aldrei leiðarstef án þess að umhverfis- og samfélagsskaði þeirra verði metinn til fjár. Ef þú mengar þá borgarðu.

Ný hagræn hugsun, drifin áfram af velsældar- og sjálfbærnihvötum í stað fortíðarþrár mengandi stórfyrirtækja er lykillinn að því að koma hér á alvöruvelsældarhagkerfi. Þessa nýju hugsun er ekki að finna í fjármálaáætluninni sem við fjöllum hér um í dag. Þó að það sé vissulega nýfundinn áhugi á nýsköpun hjá þessari ríkisstjórn og viðleitni þar, þá er þunginn enn þá á stórar atvinnugreinar sem setja mikið álag á samfélag og náttúru eins og fiskeldi, stóriðju og ferðaþjónustu. En svo eru reifaðar einhverjar velsældaráherslur sem eru hvergi mældar út frá markmiðssetningu og mælanlegum áhrifum sem aðgerðum er ætlað að hafa. Það er bara fullyrt að hinar og þessar aðgerðir styðji við velsældaráherslur en það er ekki tengt við neitt. Velsæld er bara skraut í þessari áætlun. Þetta er sama gamla hagstjórnin, sama gamla hugmyndafræðin í einhverjum nýjum búning.

Velsældarhagkerfið er engin skýjaborg, forseti. Það hvílir á þeirri hugmynd sem OECD hampar; að hætta að einblína á hagvöxt sem eina mælitæki á gæði samfélagsins. Í stað þess að láta öll ríkisfjármálin snúast um að keyra upp hagvöxtinn, að hámarka neyslu, að framleiða meira þá er horft til fleiri þátta. Sem dæmi: Við ákvarðanatöku um hvaða atvinnuvegi á að styðja þarf að skoða fleiri þætti en einungis hversu mörg störf verða til eða hversu mikil innkoman verður til ríkisins eða hversu mikill hagvöxtur. Það þarf líka að mæla áhrif á náttúru, áhrif á loftslag, líkamlega og andlega heilsu fólks, áhrif á sjálfstæði og frelsi samfélaga, áhrif á lýðræðislega þátttöku, á jöfnuð, á aðgengi að húsnæði o.s.frv. Velsældarhagkerfið leggur áherslu á að dafna fram yfir vöxt. Vöxtur á ekki að verða sjálfstætt markmið. Ef við skoðum stöðuna heiðarlega út frá þeirri fjármálaáætlun sem við fjöllum um núna erum við komin ótrúlega skammt á veg með velsældarhagkerfið.

Forseti. Í raun ætti ríkisstjórn sem státar sig af því alþjóðlega að vera kyndilberi hugmyndafræði velsældarhagkerfisins að skammast sín fyrir þessa fjármálaáætlun. Stöðnun í hugsun og framförum er ekki stöðugleiki. Það er stöðnun. Hugmyndafræði velsældarhagkerfisins, ólíkt núverandi kerfi, er að hagkerfi eru samtvinnuð samfélagi og náttúru. Þetta eru samþætt kerfi sem eru innbyrðis háð hvert öðru. Aðgerðir sem stuðla að þessu jafnvægi leiða af sér raunverulegan stöðugleika. Það að tiltekin aðgerð auki hagvöxt er ekki nóg til að réttlæta hana. Velsæld er niðurstaða margra þátta. Góð andleg og líkamleg heilsa, jöfnuður, sanngirni, jákvæðar félagslegar tengingar og dafnandi vistkerfi. Velsældarhagkerfið tryggir að handhafar ríkisbuddunnar beri virðingu fyrir fólkinu í samfélagi okkar og virðingu fyrir náttúrunni sem hýsir samfélagið okkar. Núverandi handhafar ríkisbuddunnar gera það hins vegar ekki.