154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Við ræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára og það er áhugavert plagg. Ég verð að segja í upphafi að ég var að vonast eftir því að við sæjum metnaðarfyllri áætlanir um það að snúa af þeirri braut sem samfélagið er á núna, sem er braut mjög hárra vaxta og verðbólgu og það er auðvitað sá veruleiki sem snertir fólk mest í dag og er það sem við þurfum kannski að taka mest tillit til, hugsa kannski frekar um raunstöðuna á bak við háa verðbólgu og vexti frekar en að búa í einhverjum meðaltölum eða einhverjum hliðarveruleika sem snertir ekki á venjulegu lífi fólks með neinum hætti.

Staðreyndin er sú, og þetta er búið að vera undirliggjandi og alltumlykjandi í íslenskri umræðu undanfarin misseri, að vextirnir hér og verðbólgan hér eru fyrirbæri sem eru alveg óþolandi há og miklu hærri en í nágrannalöndunum. Þetta er minn flokkur endalaust að benda á, stóra meinsemdin í okkar samfélagi er að þegar hagkerfið hér sveiflast eins mikið og það gerir þá verða hagsveiflurnar svo ýktar að verðbólga og vextir verða mun hærri en í nágrannalöndunum og dýfurnar síðan mun dýpri. Yfir þessu öllu hangir síðan sú staðreynd að við erum með gjaldmiðil sem ekki nokkur einasti aðili úti í heimi hefur trú á sem síðan býr til auknar álögur fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi eins og við þekkjum. Þetta er alltaf hærra hér en í nágrannalöndunum og auðvitað sést þetta í öllum þeim fjármálaáætlunum sem við gerum hér og öllum þeim fjárlögum sem við samþykkjum á hverju ári hér á Alþingi.

Fjárlög og fjármálaáætlun eru tæki ríkisvaldsins, tæki þings og ríkisstjórnar til að bregðast við áskorunum, setja einhverja stefnu fram í tímann. Þetta eru líka tæki til þess að setja sterkari grunn undir bæði rekstur ríkisins, afkomu sveitarfélaga og ekki síst afkomu heimila og fyrirtækja í landinu. Við vitum að þetta hangir allt saman. Staðan er sú að það er búið að reka ríkissjóð með halla lengi. Að einhverju leyti var það skiljanlegt á Covid-árunum. En mig langar að minna á það að ríkissjóður var ósjálfbær áður en til Covid-tímans kom, þ.e. reksturinn. Það stefnir í að ríkið verði rekið með halla hér lengi enn næstu ár. Við erum á þannig stað í hagsveiflunni að hagfræðingar benda á að mikill hallarekstur ríkisins er eitthvað sem ekki á að sjást á tímum sem þessum. Ofan af þessu er erfitt að vinda fyrir hæstv. ríkisstjórn og það er eitthvað sem við verðum að halda vel til haga þegar við ræðum hér um fjármálaáætlunina.

Núna liggur það fyrir að það eru einhver markmið um að selja eignir ríkissjóðs sem á að nota það til að greiða niður skuldir eða fara í einhver innviðaverkefni en að öðru leyti þá sér maður fátt sem bendir til þess að raunhæft sé verið að laga til í rekstri ríkisins þannig að það mæti í því árferði sem við erum stödd í akkúrat núna.

Mig langar í því samhengi, viðvarandi hallarekstur ríkisins sem er arfleifð þessarar ríkisstjórnar, að nefna að í þessari fjármálaáætlun er talað um að hallareksturinn minnki ár frá ári núna næstu árin. En það eru að koma fram tölur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem líta allt öðruvísi út heldur en þær tölur sem er verið að kynna í þessari fjármálaáætlun. Og það er eitthvað sem mér finnst að við þurfum svolítið að velta fyrir okkur, hvernig standi á þessum mikla mun. Við sjáum að á árinu 2029 er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun að ríkissjóður sé rekinn með 20 milljarða afgangi en hallinn samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er 95 milljarðar og það er verið að tala um að hallareksturinn á ríkissjóði verði tugir milljarða á öllu þessu tímabili, þvert á það sem er verið að spá í fjármálaáætluninni. Þetta er staðreynd eða spá sem við þurfum að velta fyrir okkur, af hverju muni svona miklu á því sem ríkisstjórnin er að leggja hérna fram og því sem óháður aðili sem rýnir þetta hjá öllum ríkjum heims kemst að niðurstöðu um. Mér finnst þetta vera svolítið áhyggjuefni, það verð ég að segja alveg eins og er.

Ég trúi því að það efist ekki nokkur maður um að það sé hægt að fara betur með peninga ríkissjóðs, að það séu tækifæri til að hagræða í ríkisrekstrinum án þess endilega að það bitni á þjónustu. Ég sakna þess svolítið, af því að við erum búin að vera í þessu ástandi núna í allmörg misseri, að afl ráðuneytanna hafi ekki verið nýtt betur til að kortleggja hvar t.d. er hægt að sameina stofnanir og fara betur með fjárreiður almennings því að tækifærin í ríkisrekstri sem er jafn umfangsmikill og hér á landi eru talsvert mikil eins og við hljótum öll að vera sammála um. Ég sakna þess að það hafi ekki verið gert.

Síðan hefur verið talað um að það sjáist vel á verkum þessarar ríkisstjórnar og birtist í þessari fjármálaáætlun að það sé verið að styðja við Seðlabankann í því verkefni að ná niður vöxtum og verðbólgu. Mig langar í því samhengi að nefna að bara á síðasta vaxtaákvörðunardegi var ekki hægt að lækka vexti einmitt vegna þess að það höfðu ekki komið fram skýr merki frá ríkisstjórninni til að mynda um það hvernig hún ætlaði að fjármagna þá kjarasamninga sem nýbúið var að gera, þannig að það er bara ein staðreynd sem talar gegn því að ríkisfjármálin séu í einhverjum takti við það sem gerir Seðlabankanum sitt verkefni auðveldara. Það var líka einkunn frá hagaðilum hér að fjárlög hefðu verið hlutlaus, þau ynnu ekki með Seðlabankanum í verkefninu heldur væru bara hlutlaus, og það var meira að segja sagt af ráðherrum ríkisstjórnarinnar að það væri hlutverk Seðlabankans að vinna gegn vöxtum og verðbólgu en lítið gert úr hlutverki ríkisins. Ég er að vona að nýr hæstv. fjármálaráðherra taki þessa hluti svolítið fastari tökum en forverar hans í starfi.

Mig langar síðan að tala um stöðu heimilanna því það er verið að tala um að hún sé bara nokkuð góð. Það finnst mér benda til þess að menn búi í einhverjum hliðarveruleika vegna þess að við þekkjum það og sjáum það á tölum að afborganir af húsnæðislánum hafa verið að hækka verulega, jafnvel á sumum heimilum um 100.000–200.000 kr. á mánuði. Það er síðan að ýta fólki yfir í verðtryggðu lánin. Höfuðstóll þeirra hækkar út af hárri verðbólgu. Ný könnun segir okkur það að 70% heimila finni verulega fyrir því hvað vextirnir og verðbólgan er að bíta mikið í heimilisbókhaldinu. Það eru bara 15% heimila sem upplifa þetta ekki. Þetta er auðvitað veruleikinn sem við þurfum að vera að tala um þegar við erum að ræða fjármálaáætlun en ekki að búa til einhver meðaltöl eða gröf sem sýna fram á einhverja stöðu sem er ekki í neinu samræmi við upplifun fólks í þessu landi.

Mig langar líka að nefna í þessu samhengi að yfirdráttarlán heimilanna, sem eru ekkert annað en dulin vanskil, eru í kringum 100 milljarðar kr. Þessi yfirdráttarlán bera vexti sem eru 16, 17 og upp í 20%. Þetta eru alveg skelfilegar tölur sem fara mjög harkalega inn í heimilisbókhaldið. Það bendir jú eitt og annað til þess núna þegar margir eru að endurfjármagna húsnæðislán sín að menn séu eitthvað að greiða niður yfirdrátt og setja þá inn í húsnæðislánin en þá eru menn að færa skammtímalán yfir í verðtryggð langtímalán í sumum tilfellum og það þýðir auðvitað að sú skuldbinding safnar verðbótum út lánstímann og býr til kúf sem menn þurfa að borga af jafnt og þétt á meðan lánið er í gildi. Það er ofur einfaldlega þannig að bæði heimili og fyrirtæki eru að kikna undan stöðunni eins og hún er. Við erum ekki búin að bíta úr nálinni með þetta enn þá. Þetta árferði sem hefur verið núna undanfarin misseri kemur þannig fram hjá heimilum að menn reyna að gera það sem þeir geta til að þreyja þorrann. Menn draga saman í útgjöldum, endurfjármagna og gera alls konar sem hægt er að gera til að bregðast við. En yfirdráttarlánin og sú staðreynd að hlutir koma stundum fram ekki alveg á sama degi og verðbólga og vextir hækka segir okkur að vanskil muni aukast núna á næstunni. Það er bara bein afleiðing af því árferði sem við höfum verið í.

Ég sakna þess mjög að ekki sé gerð meiri gangskör að því í ríkisfjármálunum og í þessari fjármálaáætlun að fara betur með fjárreiður almennings, reyna að nýta hverja krónu betur, nýta afl ráðuneytanna til þess að skoða stofnanir ríkisins og jafnvel stofnanastrúktúrinn betur. En það er svo sem kannski skiljanlegt að það sé ekki endilega stemningin inni í ráðuneytunum þegar viðbragð ríkisstjórnarinnar við kosningaúrslitum og öðru slíku er að þenja Stjórnarráðið út frekar en að senda skilaboð inn í hina áttina. (Forseti hringir.) Ég klára kannski það sem ég hef að segja um þessa fjármálaáætlun í annarri ræðu síðar í þessari umræðu úr því að ræðutími minn er búinn.