154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður flaggaði því að fréttir bárust af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn liti talsvert öðrum augum á efnahagshorfur hér í einhverri umfjöllun sem þeir hafa ekki birt okkur enn. En ég vil bara nefna það hér til útskýringar að samkvæmt reglum sjóðsins þá getur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki tekið tillit til óútfærðra skatta né ólögfestra ráðstafana í sínu máli. Við erum að leggja fram fjármálaáætlun þar sem við m.a. fjöllum um hvað við ætlum að gera á næstu árum og þar af leiðandi að lögfesta það. Það gæti nú útskýrt þennan mun að einhverju leyti og ég reikna með að við munum reyna að útskýra það í einhverri frétt til þess að það fari ekki að rugla umræðuna á Íslandi um þetta.

Hv. þingmaður minntist á íslensku krónuna eins og hann gerir reyndar oft. Mig langaði bara að koma hérna upp og nefna það að á síðastliðnum tveimur árum, þar sem vissulega hefur gengið ýmislegt á, hefur íslenska krónan verið talsvert stöðugri en til að mynda evran sem ég veit að hv. þingmaður horfir talsvert til. Og í gegnum tíðina, þó að íslenska krónan sé lítil, er nokkuð augljóst að fyrir hagkerfi eins og Ísland þá eigum við ekkert sameiginlegt með iðnaðarhagkerfi Þýskalands sem er svona megindrifkrafturinn í hagkerfi Evrópu, svo dæmi sé tekið. Við erum sjálfsagt að einhverju leyti líkari einhverri blöndu af Noregi, Kanada, Færeyjum. Ef það væri til einhver Norður-Atlantshafskróna þá gætum við sjálfsagt verið með hana ef við vildum stækka krónuna en hins vegar hefur hún reynst okkur vel að mínu mati og við munum halda því bara áfram, held ég, enda sýndi skýrsla Seðlabankans á sínum tíma fram á að það væri skynsamlegast.