154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:38]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Mér fannst bara áhugavert að halda til haga þessari frétt sem birtist um það hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn les stöðuna hér. Það er sjálfsagt hægt að deila um það hvernig eigi að setja hluti fram og annað, en mér finnst það a.m.k. áhugavert þegar við erum að ræða hérna fjármálaáætlun að spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé með þessum hætti. En varðandi krónuna þá er talað hér um að krónan hafi verið stöðug síðustu tvö ár. Nú höldum við úti gríðarlega dýrum gjaldeyrisvaraforða til þess einmitt að styðja við krónuna. Krónan gerir það að verkum að lífeyrissjóðirnir geta ekki farið út með fjármagn og fjárfest í útlöndum eins og þeir þurfa að gera miðað við umfang lífeyrissjóðanna í kerfinu heima, sem þýðir að þeir ýkja upp alla mynd á innlendum hlutabréfamarkaði til að mynda og eru farnir að fjárfesta mjög mikið í íslenskum fyrirtækjum, oft þannig að mörgum finnst nóg um þrátt fyrir að öllum sé hlýtt til lífeyrissjóðanna. Það skekkir auðvitað myndina hérna heima.

Síðan þekkjum við það auðvitað að það er almenn tilhneiging lítilla ríkja um allan heim að reyna að komast í stærra og sterkara myntkerfi einmitt til þess að losna undan sveiflum, sem hefur verið meinsemd í íslensku hagkerfi og rótin að þessum sveiflum hér er krónan. Það er ofur einfaldlega sannleikur málsins. Hins vegar er það þannig að menn nota síðan þennan óstöðugleika sem krónan veldur sem einhver rök fyrir því að það sé gott að vera með krónu. Ég ætla ekki að taka undir slíka leikfimi og röksemdafærslu. Ég fagna hverju tækifæri til að benda á að það sem við þurfum að gera hérna á Íslandi — af því að það er gott að búa á Íslandi og lífskjör hér eru auðvitað að mestu leyti ágæt þó að við getum auðvitað gert miklu betur heldur en við erum að gera — er að fá jafnan takt í hagkerfið (Forseti hringir.) til lengri tíma þar sem sveiflurnar eru ekki svona miklar, þar sem hæðirnar eru ekki svona óskaplega háar og dalirnir svona óskaplega djúpir. Það er auðvitað miklu betra velferðarmál heldur en þessar sveiflur sem við búum endalaust við.