154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að það er sjálfsagt hvergi betra að búa og lífskjör með allra besta móti í samanburði við öll ríki heims og fyrir utan svo margt annað sem fylgir því að búa hér, með hreint loft, hitaveitu, ódýra orku, frið og öryggi.

Mig langaði að nefna í seinna andsvarinu örstutt að á síðustu 50 árum hefur íslenskt efnahagslíf gjörbreyst frá því að sjávarútvegur var okkar helsta útflutningsgrein og kannski aðalstoð yfir í það að síðan kom orkan í kjölfarið, náttúruauðlindir, ferðaþjónustan, hugverkaiðnaðurinn og núna á síðustu árum skapandi greinar, vaxandi iðnaður. Ég nefndi í ræðu minni að fiskeldi og tæknigreinar væru að verða jafn stórar greinar og sjávarútvegur, skapandi greinarnar þar til viðbótar og iðnaðurinn, þannig að við erum í raun komin með fimm stoðir í dag undir okkar hagkerfi sem gerir það miklu stöðugra til framtíðar. Við erum líka komin með viðskiptaafgang sem við vorum ekki með hér á árum áður, það var viðvarandi viðskiptahalli. Þetta bara gjörbreytir stöðunni og við getum haft stöðugleika ef við erum með skynsemi í ríkisfjármálum og hófsamar áætlanir sem ég vil bara halda því fram að sé í þessari fjármálaáætlun sem hér er til umfjöllunar.

Ég vil bara undir lok þessarar umræðu þakka fyrir málefnalega umræðu í dag.