154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:42]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta innlegg. Ég er auðvitað alveg sammála því, það er mjög gott og gæfuríkt fyrir samfélagið að það skuli vera fleiri stoðir undir efnahagslífinu. Hér er nefndur hugverkaiðnaður, skapandi greinar, ferðaþjónusta og annað sem bæst hefur við. Þetta er auðvitað gríðarlega mikið fagnaðarefni. En mig langar líka samt að nefna, svona með vísan í okkar fyrri samskipti og fyrri andsvör, að þetta fer ekkert frá okkur þótt við göngum í Evrópusambandið eða tökum upp evru. Þetta verður áfram til staðar, mig langar að halda því til haga. (Gripið fram í.) Við getum örugglega og eigum eftir að rökræða þetta margoft hér í þingsal og á öðrum vettvangi.

Það er auðvitað þannig að Ísland er mjög gott land. Við eigum alveg gríðarlega mikið af auðlindum og ég vil meina það að okkar stærsta og sterkasta auðlind núna sé hugvitið okkar, það hversu vel menntuð þjóðin er og hversu dugleg hún er að búa sér til tækifæri úr því sem til staðar er í íslensku samfélagi. En mig langar þá líka að nefna að þeir sem t.d. eru að reyna að búa til ný tækifæri á Íslandi með íslenskum fyrirtækjum sem starfa alþjóðlega — allir þessir aðilar benda mjög sterkt á að krónan sé ákveðin hindrun þegar kemur að því að sækja fram á mörgum markaðssvæðum. Mér finnst að það sé eitthvað sem við þurfum að horfa til. En ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það er miklu betra að við séum með efnahagslíf sem hefur margar styrkar stoðir undir. Ég ætla bara að árétta það sem ég sagði áðan að ég vona nýr hæstv. fjármálaráðherra geri svolítið meiri gangskör að því þegar kemur að fjárreiðum ríkisins, sem við erum auðvitað að tala um í þessari fjármálaáætlun, að nýta peninga skattgreiðenda með betri hætti. (Forseti hringir.) Við getum ekki alltaf mætt því sem snýr að fjárreiðum ríkisins með því að reyna endalaust að auka tekjur en hugsa ekkert um útgjaldahliðina líka. (Forseti hringir.) Það setur okkur auðvitað í þá stöðu til lengri tíma að reksturinn verður ekki sjálfbær.