154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:01]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að það sé óhætt að fullyrða að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi flutt góð tíðindi inn í þennan sal í dag. Það verður að segjast eins og er hér í upphafi minnar ræðu að það eru góð tíðindi í fjármálaáætlun þeirri sem liggur fyrir þinginu og nokkur atriði sem standa upp úr. Í fyrsta lagi mikill hagvöxtur og afkomubati umfram væntingar. Það er hófleg skuldastaða hjá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögin eru ekki illa sett þó að skuldastaðan þurfi að lækka þar yfir tíma og ekki síður verður að segja að íslensk heimili hafa búið við hóflega skuldastöðu þessi misserin. Það horfir ekki til þess að það breytist mikið, það er mjög jákvætt og alger umbylting frá því sem var hér fyrir tíu árum. Við sjáum stöðugt vaxandi kaupmátt fólksins í landinu sem hefur haldið áfram að aukast undanfarin ár. Þó að það hafi mikið breyst í ytra umhverfinu, bæði heimsfaraldur og náttúruhamfarir, þá höfum við komist vel frá þeim tíma, ólíkt flestum samanburðarríkjum. En verðbólgan er vissulega að gera skuldsettum heimilum sem eru með há húsnæðislán erfiðara fyrir en áður var þegar við bjuggum við mjög lágt vaxtastig.

Í þessari áætlun birtist skýr forgangsröðun útgjalda í þágu heilbrigðismála, innviðauppbyggingar, nýsköpunar og til stuðnings við þá sem mest þurfa á að halda. Með öðrum orðum vil ég segja hér strax í upphafi að áætlunin sýnir að svona heilt yfir þá gengur nokkuð vel á Íslandi og ástæða til bjartsýni um framtíðina. Það er í þessu ljósi skiljanlegt að aðilar vinnumarkaðarins hafi getað gert langtímasamning. Það er bjartsýni sem fylgir þeirri hugsun að leggja upp með langtímasamninga á vinnumarkaði. Aðilarnir hafa trú á því að hlutirnir séu á réttri leið, að jafnvægi muni nást, að hér sé hægt að varðveita og tryggja stöðugleika.

Undanfarið höfum við mátt glíma við, eins og ég hef hér nefnt, ýmis risaverkefni; heimsfaraldur, efnahagslegar hremmingar vegna innrásar Rússa í Úkraínu og á undanförnum árum sömuleiðis fallið snjóflóð, aurskriður fyrir austan og nú síðast eldsumbrot sem hafa sett blómlegu samfélagi á Suðurnesjunum gríðarlegar skorður. En hann er svo sem aldrei beinn og breiður vegurinn sem við fetum og við eigum ekki að gera ráð fyrir því að hér sé allt með kyrrum kjörum endalaust heldur þurfum við þvert á móti að nota góðu árin til að búa í haginn og bregðast svo rétt við í samræmi við aðstæður þegar á þarf að halda. Í því sambandi má muna að staða ríkissjóðs var góð fyrir heimsfaraldur og skuldahlutföllin voru lág og því gátum við staðið með fólki og fyrirtækjum í landinu. Með þeirri fjármálaáætlun sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kynnir hér nú þá stefnum við að nýju á sömu slóðir. Það er líka mikilvægt að muna, þetta með fyrirhyggjuna, vegna þess að áætlanir okkar og væntingar verða að samræmast því sem gerist í raunheimum. Okkar góða samfélag stendur nú með Grindvíkingum og tryggir þeim fyrirsjáanleika um framtíðina, við viljum gera það, og það auðvitað setur visst strik í afkomu ríkissjóðs um þessar mundir en við komumst frá því vel þegar fram í sækir.

Í því samhengi vil ég auðvitað nefna að ég heyri og ég skil áhyggjur Grindvíkinga sem mörgum finnst að hlutirnir mættu ganga hraðar fyrir sig. Það er allt að því ómögulegt að setja sig í spor þeirra sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín, atvinnurekstur og heimabæinn vegna jarðelda, í óvissu um framhaldið. Við erum að fylgjast með þessu og við heyrum raddir Grindvíkinga. Ég heiti því að áfram verði unnið af fullum þunga við að leysa þeirra mál og draga eins og hægt er úr óvissunni. Í morgun fundaði ég með bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar í Grindavík ásamt fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra og við fórum yfir stöðuna í Grindavík, helstu verkefnin fram undan og ég mun áfram leggja áherslu á að vera í góðu sambandi við bæjaryfirvöld, enda er verkefnið þess eðlis að allir verða að leggjast á eitt.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir allar þessar áskoranir þá er, eins og áður segir, um margt öfundsverð staða uppi á Íslandi. Þetta er staða sem ekki hefur verið byggð upp af ríkisstjórninni eða þeim sem hér sitja. Okkur hlutverk er að greiða götu þeirra sem vilja láta til sín taka. Það er að sjálfsögðu fólkið í landinu sem hefur unnið kraftaverk. Framtakssemi þess er grunnurinn að árangri okkar allra. Opinberir starfsmenn sem og í einkageiranum eru að vinna frábæra vinnu, hér er mikið um nýsköpun og það er sóknarhugur í okkar samfélagi. Hlutverk okkar hér er að setja skýrar leikreglur, taka utan um þá sem þess þurfa, þvælast ekki fyrir fólki og leggja á það sífellt hærri gjöld t.d., það má ekki gerast vegna þess að ef við göngum of langt á þeirri braut til að fjármagna hugðarefni þingsins þá munum við drepa þennan frumkraft og sköpunargleði.

Við erum í fjármálaáætlunarvinnunni ekki að ræða fjárlög. Þó að umræðan hafi oft tilhneigingu til að fara ofan í einstaka málaflokka um of þá finnst mér mikilvægt að við náum að ræða í umræðu um fjármálaáætlun breiðu línurnar, stóru myndina. Hún er sú í þessari áætlun að við ætlum að sýna aðhald. Við ætlum áfram að treysta grunn opinberra fjármála. Við viljum styðja Seðlabankann í baráttunni við verðbólguna. Við erum að auka aðhaldið og það birtist í því að afkoman er að batna smám saman. Við höldum sömuleiðis áfram að byggja upp innviði og við stöndum með þeim sem þurfa á stuðningi mestum að halda. Við erum að fjármagna hér meiri háttar breytingar á örorkubótakerfinu, svo dæmi sé tekið, frumvarp sem liggur fyrir þinginu. Það er risatímamótamál sem ríkisstjórnin vill beita sér fyrir. Nýr Landspítali rís hratt úr jörðu og það eru fyrirhugaðar miklar framkvæmdir í samgöngumálum. Svona gæti ég haldið áfram að tína upp málin. Útgjöld yfir tímabilið lækka sem hlutfall af landsframleiðslu. Það skiptir máli að vera með mikinn hagvöxt og það leggur grunn að því að skuldastaðan batnar sömuleiðis. Frumjöfnuðurinn verður jákvæður á þessu ári. Hann heldur áfram að batna á tímabilinu og heildarjöfnuður er fyrirséður á tímabilinu.

Auðvitað svíður okkur öllum að sjá háar fjárhæðir renna í vaxtagjöld. Ég vil samt vekja sérstaka athygli á framsetningu í fjármálaáætluninni. Hún er sérstaklega varfærin. Við erum að tína til reiknaða vexti sem ekki allar þjóðir gera og það má huga að vaxtajöfnuði þegar rætt er um vaxtagjöld. Þetta eru allt saman atriði sem menn ættu að huga að. Ég fagna þeirri framsetningu sem birtist í áætluninni hvað þetta snertir, greiddir vextir sérstaklega tilteknir, reiknaðir sömuleiðis o.s.frv.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um helstu tölur og stærðir sem hæstv. fjármálaráðherra hefur rakið vel í dag. En í lokin vil ég bara segja þetta: Hér birtist skýr sýn fyrir framtíðina, sýn á samkeppnishæft og kraftmikið samfélag þar sem fólk vill búa, starfa og eignast fjölskyldu, (Forseti hringir.) þar sem fólk skapar sér tækifæri og lífskjör á eigin forsendum.