154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Líkt og hæstv. forsætisráðherra lýsti í ræðu sinni hafa Grindvíkingar orðið fyrir miklu áfalli. Það er óþægilegt að finna fyrir vanmætti gagnvart náttúrunni og óvissan tekur á og þegar við bætist óvissan um hvaða stuðnings er að vænta frá stjórnvöldum, hvenær hann kemur, verður staða nánast óbærileg. Um 75% íbúðareigenda í Grindavík hafa óskað eftir uppkaupum á íbúðum sínum og það kallar augljóslega á mannskap til að vinna úr umsóknum og afgreiða þær fljótt og vel hjá fasteignafélaginu Þórkötlu. Grindvíkingar kvarta undan seinagangi og að vegna hans renni út tilboð sem þau höfðu gert og íbúðaverðið hækkað og hækkað sem aftur hefur áhrif á verðbólgu og efnahag þeirra sem þurfa að festa kaup á nýju heimili vegna náttúruhamfara og auðvitað einnig annarra þeirra sem vilja inn á markaðinn. Spennan er mikil á húsnæðismarkaði og slegist um íbúðir á ákveðnum svæðum og bæjarfélögum. Ríkisstjórnin hefur ekki viljað hingað til stíga fast inn á markaðinn svo neinu nemi. Ráðherrar hafa látið hafa eftir sér að best sé að markaðurinn sjá um þetta sjálfur og leysi úr stöðunni en augljóst er að markaðurinn ræður ekki við þessar aðstæður. Það hljóta allir að sjá. Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála því?

Eftir gosið í Vestmannaeyjum fyrir rúmum 50 árum, í janúar 1973, var búið að reisa einingahús og byrjað að laga lóðir í kringum þau og tyrfa strax sumarið 1973. Ríkisstjórnin hlutaðist til um málið. Það hefði hún líka átt að gera til að koma til móts við Grindvíkinga og aðra þá sem eru á sama tíma og Grindvíkingar að reyna fyrir sér á fasteignamarkaði. Ríkisstjórnin hefði fyrir löngu átti að fara í samstarf við bæjarfélögin á Suðurnesjum til að byggja upp hverfi þar sem Grindvíkingar ættu forgang. Telur hæstv. forsætisráðherra að það sé of seint að hrinda slíku samstarfi af stað?