154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:12]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla alls ekkert að útiloka það að samstarfið geti þróast á einhvern slíkan hátt að það verði gert átak af þeim toga sem hér er nefnt. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hef áhyggjur af framboðshliðinni. Þetta er risavaxið verkefni sem við erum með í höndunum. Það er stórmál fyrir fjölskyldur að þurfa að yfirgefa heimili sín og koma sér fyrir á nýjum slóðum og það er sama hvort það eru börn eða ekki börn á því heimili, þetta er alltaf mjög stór og mikil röskun fyrir fjölskyldulífið en kannski alveg sérstaklega þegar ung börn eiga í hlut. Við höfum mikið rætt um áhrifin á markaðinn í heild sinni, sem eru hin hliðin á þessum peningi, að á meðan ekki er fullnægjandi framboð þá mun það sömuleiðis geta haft neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn. Allt þetta er bara yfirstandandi og þetta eru verkefni og spurningar sem við þurfum að bregðast við á hverjum degi. Ég er að byrja að setja mig nánar inn í það í mínu nýja ráðuneyti hver staðan er. Í þeim tilgangi átti ég fund með bæjarstjóra og formanni bæjarráðs í morgun og ég sé að það hefur ekki gengið jafn hratt hjá nýju fasteignafélagi, Þórkötlu, eins og vonir höfðu staðið til. En ég veit þó að það er mjög mikið að fara út af tilkynningum um kaup sem mun þá losa um ákveðna stíflu. Þetta er um 700 manns sem bíða úrlausnar sinna mála hjá félaginu. Það sem hv. þingmaður er í raun og veru að segja er að við þyrftum að huga líka að hinum endanum, hvert fólk á að flytja og hvort við getum tekið höndum saman um að hjálpa til við að ný heimili rísi þannig að framboðið verði til staðar.