154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er þannig að jafnvel þó að innviðir í Grindavík séu ekki í lagi hefur enginn, hvorki ríkið, almannavarnir né bæjarstjórnin í Grindavík, sagt til um hvort bærinn verði byggilegur eða ekki á næstunni. Það virðist vera óvissa um hver beri ábyrgð og hver taki ákvarðanir, hver gefi fólkinu svör. Hæstv. forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs og ég spyr: Er óljóst hvaða ferlum farið er eftir þegar neyðarástandi sleppir en skemmdir og eyðilegging blasir við sem hefur áhrif á líf fólks til lengri tíma eftir náttúruhamfarir? Grindvíkingar kalla eftir svörum og þau vilja vita hver ber ábyrgð. Það gerði einnig hv. þingmaður og Grindvíkingurinn Vilhjálmur Árnason í dag í störfum þingsins. Ég spyr því hvort lausnin geti verið sú að nýrri stjórn verði komið á sem taki ákvarðanir um áríðandi mál fyrir Grindavík sem tæki af skarið, skipuð fulltrúum ríkisins, almannavarna og bæjarstjórn Grindavíkur?