154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:16]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef viljað nálgast málið þannig að við virðum sjálfsákvörðunarrétt Grindvíkinga í lengstu lög og það gildir líka um stjórn sveitarfélagsins. En við sjáum auðvitað í hendi okkar og eigum samtal um það — nú síðast var bæjarstjórnin að kalla eftir dýpra samtali við stjórnvöld sem er farið af stað í raun og veru eða mun kannski formlega fara dýpra af stað eftir helgina við innviðaráðherra — um akkúrat þessar stóru spurningar. Þetta eru risaverkefni að leysa úr og þegar bæjarstjórnin segir að hún sjái ekki fram á að geta haldið skólastarfi gangandi og ekki heldur í safnskólum þá vakna spurningar af þeim toga sem hv. þingmaður lyftir hér. Við höfum ekki staðið frammi fyrir þessu, ekki síðustu áratugina a.m.k., að svara því hvernig stjórnfyrirkomulag myndi henta best þegar við erum komin í svona langvarandi óvissuástand. En ég mun leggja mitt af mörkum til þess að mæta kröfum og þörfum Grindavíkur um leið og við bregðumst við og stígum inn þar sem eftir því er kallað. Ég sæi fyrir mér stjórn, mögulega af þeim toga sem hv. þingmaður nefnir með aðkomu almannavarna, en mögulega (Forseti hringir.) þurfa almannavarnir að geta einbeitt sér að meiri bráðavanda og við þurfum kannski að sætta okkur við að skipa stjórnina með öðrum hætti þegar um langvarandi ástand er að ræða.