154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjármálaáætlun til næstu fjögurra ára og mér heyrist ekki annað á hæstv. forsætisráðherra en að hann sé ánægður með þessa fjármálaáætlun. Fyrir síðustu kosningar að ég held, árið 2017, sendi hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson bréf til eldri borgara þar sem hann sagðist ætla að draga úr skerðingum í lífeyrissjóðskerfinu. Í dag þegar maður horfir á þessa fjármálaáætlun þá kemur skýrt fram að það er ekki reiknað með neinum hækkunum til eldri borgara og öryrkja heldur er reiknað með að auknar lífeyrissjóðsgreiðslur skili því að það verði hægt að skerða meira. Eins og staðan er í dag þá er það þannig að ef eldri borgari fær 10 kr. fara nær 8 kr. af því til ríkissjóðs, 2 kr. skila sér til viðkomandi. Það stefnir í að heildarskerðingarnar í þessu kerfi nálgist 100 milljarða. Það er nærri jafn mikið og þarf til að borga upp vaxtagreiðslur ríkisins. Þetta er það sem ríkið sparar sér á þessu kerfi, þessu ótrúlega mannvonskukerfi þar sem er verið að skerða alveg með ótrúlegum hætti og það er enn þá sama skerðingarprósentan, 45% skerðingar. Það virðist vera regla hjá þessari ríkisstjórn að það sé alltaf einhver skilinn eftir. Aldraðir fá ekki hækkun, auknar skerðingar á öryrkja, mismunun og einhvern veginn eiga allir að fá hækkanir nema þessi hópur. Ég spyr: Ætlar hann að sjá til þess að þessi hópur fái líka kjarasamningsbundnar hækkanir eins og aðrir hafa fengið og það strax?