154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ef ég skil hæstv. forsætisráðherra rétt þá er hann stoltur af því að það skuli vera nær 100 milljarða skerðingar í þessu kerfi, að þær séu að aukast ár frá ári og að hver einasta króna sem kemur frá lífeyrissjóðunum sé skert um 45% eftir skatt. Ef það er hægt að vera stoltur af því þá skil ég það ekki. Ég næ því ekki hvernig það er hægt að vera stoltur af því að jaðarskattar með sköttum og skerðingum séu að nálgast 80%. En látum það vera. Hann er líka stoltur af því að það hafi verið samið til fjögurra ára á vinnumarkaði en hann ætlar samt að halda fast við það að eldri borgarar og öryrkjar eigi ekki að fá hækkun fyrr en um næstu áramót. Við vitum að alltaf um áramótin þá tekst þeim einhvern veginn með einhverjum brelluútreikningum að hafa mun lægri upphæð til þessa hóps heldur en var samið um á almennum vinnumarkaði. Ætlar hann að sjá til þess núna — og af hverju ekki? — að þessi hópur fái þessar hækkanir núna 1. júlí t.d. og sýna það í verki (Forseti hringir.) að hann eigi ekki að bíða næstu fjögur árin? Það sést hvergi í þessari fjármálaáætlun að hann eigi að fá það sama næstu fjögur árin.