154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:24]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Á bls. 9 í þessari áætlun er að sjá útgjaldaramma málefnasviða fyrir næstu ár og þar má sjá í liðnum um laun og verðlagsbætur að u.þ.b. 40 milljarðar rúmir koma inn á hverju ári og inni í því eru m.a. bætur af þeim toga sem hv. þingmaður er að vísa til, þ.e. að það sé tryggt að það séu til fjármunir til að mæta verðlagsþróun í landinu fyrir almannatryggingar. En af því að hér er svo mikið rætt um skerðingar þá ætla ég aðeins að vekja athygli á því sem greitt er út. Málefnasviðið Örorka og málefni fatlaðs fólks fær á næsta ári 108 milljarða. Þegar ég byrjaði í fjármálaráðuneytinu árið 2013 þá var þetta málaflokkur sem var innan við 40 milljarðar. Hann verður 108,4 milljarðar á næsta ári. Málefni aldraðra, þetta er ellilífeyrir til aldraðra. Þetta er málaflokkur sem var rétt um 40 milljarðar árið 2013. Hann er 118 milljarðar á næsta ári. Þessir tveir málaflokkar, aldraðir og öryrkjar, eru þannig á næsta ári 227 milljarðar en voru samanlagt undir 80 milljörðum árið 2013. 230 milljarðar tæpir en ekki 80 eins og var 2013. Þetta sýnir það að aukin hagsæld í landinu hefur leitt til getu ríkissjóðs til að standa betur með þessum hópum enda hefur kaupmáttur bóta almannatrygginga vaxið jafnt og þétt. (Gripið fram í.)