154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna, sem mér fannst reyndar frekar vera ræða fjármálaráðherra en forsætisráðherra. Mig langar einmitt að spyrja um þau málefni sem hæstv. forsætisráðherra hefur í augnablikinu á sinni könnu en hefur kannski ekki þurft að eyða miklum tíma í hingað til, málefni eins og jafnréttismál, sjálfbærni, velsæld og mannréttindi. Nú veit ég ekki hvort hæstv. forsætisráðherra ætlar einfaldlega að losa sig við þessi málefni en mig langar alla vega að spyrja: Mörg þessara sviða hafa þurft að takast á við bakslag á undanförnum misserum. Mikið af því starfi sem unnið er á þessum sviðum er í höndum frjálsra félagasamtaka sem hafa þurft að reiða sig á fjármagn beint frá forsætisráðuneytinu í tíð forvera hæstv. forsætisráðherra. Mun hæstv. forsætisráðherra halda áfram þessum mikilvæga stuðningi eða mega þessi frjálsu félagasamtök reikna með því að verulegur samdráttur verði á honum?