154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:27]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að afturkalla stuðning við frjáls félagasamtök á þessu sviði, þvert á móti held ég að ég hafi sýnt í verki vilja til þess að tryggja að frjáls félagastarfsemi í landinu sé blómleg. Í því sambandi má ekki síst benda á frumvarpið um almannaheillafélög, þ.e. við tryggðum almannaheillastarfsemi í landinu betri tækifæri til að fjármagna sig með því að framlög til þeirra eru nú frádráttarbær frá skatti, sem er mikill hvati bæði fyrir lögaðila og einstaklinga til að standa með slíkri starfsemi. Við viljum að lögin í landinu segi við alla þá sem eru að leggja þá vinnu á sig að við kunnum að meta það sem þeir eru að gera, að við lítum þannig á að þetta sé mikilvæg stoð í samfélaginu sem við viljum ekki vera án og viljum ekki að öll starfsemi af þessum toga sé færð undir opinbert þak, heldur viljum við einmitt að frjálsu félagasamtökin blómstri og fólk hafi hvetjandi umhverfi til að láta gott af sér leiða. Það verður síðan alltaf að vera mat hverju sinni þegar samningar og stuðningsaðgerðir koma til endurskoðunar hvernig fjármagninu verður best dreift en hugur minn stendur til þess að tryggja áfram blómlega slíka starfsemi í landinu.