154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Spurningin var um það hvort þessi samtök mættu áfram reikna með stuðningi frá ráðuneytinu. Það er gott að við fáum stuðning frá fólkinu og fyrirtækjum í landinu eins og við sáum gert í dag á mjög rausnarlegan hátt.

Í seinni spurningunni langar mig að spyrja: Það hefur mikið verið talað um það á síðastliðnum dögum að við þurfum að auka traust á stjórnmálunum, traust á Alþingi og traust á ríkisstjórn. Eitt af því sem forveri hæstv. forsætisráðherra var að vinna í áður en hún fór á önnur mið var vinna við að uppfæra stjórnarskrána og takast á við sum af þessum vandræðum sem við erum að sjá, m.a. með dómi Mannréttindadómstólsins fyrr í vikunni. Mun hæstv. forsætisráðherra halda áfram þeirri þverpólitísku vinnu?