154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:30]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvernig ráðuneytið mun stýra stuðningi þá er ég mjög opinn fyrir því að halda stuðningi ráðuneytisins við frjáls félagasamtök áfram en áskil mér auðvitað rétt til að stýra því fjármagni eftir atvikum vegna þess að almennt er það þannig að fleiri sækja um en við getum stutt og hefur ekki enn þá reynt á það hjá mér að þurfa að gera þannig upp á milli umsóknaraðila um slíka styrki. En ég er almennt mjög hlynntur því að standa með slíkri starfsemi í landinu.

Hér var síðan spurt um stjórnarskrána. Ég hef verið þátttakandi í þessari vinnu sem formaður í mínum flokki og tel að við höfum undanfarinn áratug unnið nokkuð merkilegt starf við að greina bæði gildandi stjórnarskrá í þaula og sögulegar rætur hennar. Svo höfum við verið að skiptast á skoðunum um þörfina fyrir breytingar. Ég mun líklega nálgast þessa þverpólitísku vinnu þannig að byrja að finna sameiginlegu snertifletina. Ég held að það sé nokkuð umfangsmikið efni sem lítill ágreiningur er um. Við getum tekið nýjasta dæmið um hversu margar undirskriftir þarf til að fá viðurkenningu á framboði til kjörs til forseta Íslands. Þetta er svona dæmigert mál, en það er fleira af tæknilegum toga sem liggur fyrir í frumvarpsdrögum sem ég held að við ættum að geta sammælst um. Svo fer það eftir því hversu langt inn í efnislegu atriðin, hin pólitísku atriði, við treystum okkur til að fara hvenær leiðir skilja. En ég mun vilja beita mér fyrir stjórnarskrárbreytingum sem breið samstaða er um á þinginu. Þannig hef ég alltaf viljað nálgast það mál.