154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:32]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fátækt og samfélagslegur kostnaður vegna hennar er mikilvægt viðfangsefni sem með réttu hefur fengið aukna athygli síðastliðin ár. Þrátt fyrir að við lifum í velferðarsamfélagi, þrátt fyrir að jöfnuður hafi aukist hérlendis á undanförnum árum þá er fátækt staðreynd í íslensku samfélagi og hluti þjóðarinnar býr við kröpp kjör. Í ljósi verðbólgu er ljóst að þeir sem búa við slökustu kjörin finna mest fyrir henni. Fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lét að undirlagi þingsins og hv. þm. Halldóru Mogensen vinna skýrslu um fátækt á Íslandi undir heitinu Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður. Í nýlegri kynningu skýrsluhöfunda kom fram að sú vinna skilaði sér beint inn í aðkomu stjórnvalda við gerð nýlegra kjarasamninga sem birtist til að mynda í gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Í skýrslunni kemur fram að heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar nemi á bilinu 31–92 milljörðum kr. á ári. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir svo það er til mikils að vinna að ná þeim kostnaði niður og í ofanálag áhrifunum sem fátækt hefur á heilsu og velsæld fólks. Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar ákvað ríkisstjórnin að veita fjármagn til frekari rannsókna um fátækt á Íslandi. Hópur fræðimanna mun vinna með sérfræðingum Stjórnarráðsins úr gögnum um fátækt og skila forsætisráðherra samantekt um stöðumat og valkosti ársfjórðungslega. Því spyr ég: Hvenær er von á næsta stöðumati og til hvaða hóps eða hópa verður litið?