154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:34]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég þekki þessa vinnu og það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir hér að þessi vinna hefur m.a. skilað sér inn í áherslur stjórnarinnar og var liður í samtali ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins og hefur eflaust verið horft líka til þessarar umræðu og þess sem vinnan hefur dregið fram í áherslum vinnumarkaðarins að þessu sinni í aðdraganda þeirra kjarasamninga sem nýgerðir eru. Ég er ekki með upplýsingar um það hér nákvæmlega hvenær næsta uppfærsla fer fram en það eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem við erum farin að skilja betur að standa höllum fæti. Þeir sem eru einstæðir að ala upp börn hafa átt erfitt uppdráttar. Það er m.a. ástæða þess að við höfum verið að auka við í barnabótakerfinu og reyna að draga úr tekjutengingum í barnabótum. Við höfum sömuleiðis verið að styrkja fæðingarorlofskerfið í ljósi þess hversu mikilvæg fjölskyldueiningin er í okkar samfélagi og hversu mikið grundvallaratriði fyrstu árin eru fyrir fjölskyldur. Þetta skiptir auðvitað miklu máli líka í samhengi við jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði o.s.frv. Við höfum séð í mörg ár að einstæðir feður virðast standa hvað verst hvað afkomu snertir. Við ræðum oft um fátækt barna og þá er verið að vísa til þeirra barna sem alast upp á tekjulágum heimilum eða tekjulægstu heimilunum. Margvíslegar aðgerðir, bæði á sveitarstjórnarstiginu og af hálfu ríkisstjórnarinnar, t.d. í gegnum Covid, hafa verið að horfa sérstaklega til þess að standa með slíkum fjölskyldum og sporna þannig gegn fátækt barna til þess (Forseti hringir.) að við getum sagt áfram að við búum í landi þar sem allir fá jöfn tækifæri.