154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:37]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við höfum verið með á prjónunum undanfarna mánuði og ég vildi nefna sérstaklega í þessu samhengi eru málefni innflytjenda og þá í þessu samhengi hlutanna fátækt hjá innflytjendum. Við erum farin að sjá merki um það að okkur hafi ekki tekist nægilega vel til við aðlögun fyrir þá sem hafa sest hér að. Það birtist okkur í því að það reynist gríðarleg áskorun fyrir bæði leikskóla- og grunnskólakerfið okkar að mæta tungumálakennsluþörfum, íslenskukennsluþörfum. Við þurfum auðvitað að hafa kennara til þess og tryggja nægilegt fjármagn. Það er líka mikil áskorun að sjá til þess að börn innflytjenda séu ekki félagslega jaðarsett heldur sjái fram á að geta fullnýtt öll tækifæri til tómstunda og félagsstarfs af öllum toga, íþróttaiðkun og annað þess háttar, til jafns við aðra. (Forseti hringir.) Ég sé fyrir mér að athygli okkar muni í auknum mæli beinast að tækifærum og möguleikum okkar til að gera betur við þá sem hafa flutt til Íslands til að setjast hér að.