154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ný könnun Maskínu sýnir slæma stöðu heimilanna í landinu og sýnir það að verðbólga og háir vextir hafa mikil eða mjög mikil áhrif á heimilisbókhaldið hjá 70% þjóðarinnar. Það er eins og glærukynningar ríkisstjórnarinnar hafi einmitt ekki náð til þessara 70% þjóðarinnar. Aðeins 15% sem tóku þátt í könnuninni segja að vextir og verðbólga hafi haft lítil áhrif, það er aðallega eldra fólk og fólk sem er með meira en 1,7 milljónir í mánaðarlaun. Þetta er nokkurn veginn kjósendamengi Sjálfstæðisflokksins. Þessi könnun sýnir og staðfestir tilfinningu fjölda fólks og fullyrðingar okkar í Viðreisn um að staða heimilanna hafi versnað. Það er algjört forgangsmál að okkar mati að skapa svigrúm fyrir vaxtalækkanir, skapa svigrúm fyrir það að lækka verðbólgu. Við sjáum hins vegar að áratugur af ríkisstjórn, annaðhvort með eða undir forystu Sjálfstæðisflokksins, skilar ríkissjóði í halla. Heill áratugur, tíu ár sem ríkissjóður verður í halla meðan Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórninni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki eins bjartsýnn og ríkisstjórnin og spáir því, í stað 45 milljarða halla, og mér fannst það nú alveg nóg, að það verði 95 milljarða halla. Hæstv. fjármálaráðherra svarar: Það er ekki tekið tillit til ólögfestra áætlana eða aðgerða. Það kemur mér reyndar ekki á óvart, það sem hefur komið frekar á óvart er að ríkisstjórnin með þetta stóra lýðræðislega umboð, 38 þingmenn, hefur ekki notað þetta sterka umboð til þess að hreyfa við málum og ýta málum í gegn. Alla vega er það þannig að við erum að horfa upp á skuldsettan ríkissjóð.

Ég spyr: Hvað mun breytast og verða til þess að verkefnalisti ríkisstjórnarinnar komi hingað inn í þingsal þannig að (Forseti hringir.) við getum farið að afgreiða mál sem raunverulega skipta heimilin í landinu máli þannig að þau geti farið að gera eitthvað annað heldur en að taka yfirdráttarlán upp á 17% vexti? (Forseti hringir.) Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera á næstunni til að hjálpa heimilunum í landinu, a.m.k. þessum 70% sem eru að senda út ákall eftir hjálp?