154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:41]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var einhver furðulegasta samantekt á stjórn efnahagsmála síðastliðinn áratug sem ég hef lengi heyrt. Fyrir tíu árum síðan vorum við föst hér í fjármagnshöftum. Við vorum með skuldastöðu heimila sem var ósjálfbær og efnahagslegt vandamál. Við vorum ekki með stóran gjaldeyrisvaraforða. Við vorum með skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu rúmlega tvöfalt hærri heldur en á við í dag. Við höfum meira en helmingað skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu, en hv. þingmaður talar um að þetta hafi allt verið að þróast á hinn veginn. Í fjármálaáætlun sem ég lagði fyrir þingið hér árið 2019 áður en Covid skall á þá sáum við fram á það að skuldir ríkissjóðs yrðu svo lágar að það væri óskynsamlegt í raun og veru að gera meira af því að greiða upp skuldabréf ríkissjóðs til að geta haldið úti einhverjum vaxtafæti á íslenska skuldabréfamarkaðnum og vorum farin að leggja drög að því að safna í þjóðarsjóð. Þannig að þessi ræða um skuldastöðu ríkissjóðs er eiginlega alveg með ólíkindum og út í hött, enda eru skuldir ríkissjóðs samkvæmt lögum um opinber fjármál rétt í kringum 30% og eru bara mjög hóflegar. Að auki höfum við á síðastliðnum áratug byggt upp gjaldeyrisvaraforða sem hefur verið upp undir 1.000 milljarðar og við erum í fyrsta skipti í lýðveldissögunni komin með jákvæða stöðu gagnvart útlöndum. Við eigum meiri eignir sem þjóðarbú í útlöndum heldur en við skuldum í fyrsta skipti í lýðveldissögunni. Ég held að það væri ágætt að byrja þessa umræðu eða þetta samtal á því að átta sig á þeirri umbyltingu sem hefur orðið í íslenskum efnahagsmálum síðastliðinn áratug.

Það breytir því ekki að það er mikil áskorun fyrir skuldsett heimili þegar vextir hækka og við erum með þær aðgerðir helstar þessi misserin að bæta afkomu ríkissjóðs þannig að við stöndum með Seðlabankanum í því að ná verðbólgunni niður og síðan eru okkar aðgerðir hvað umfangsmestar í húsnæðismálum.