154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ja hérna. Ég segi nú bara: Óttaleg viðkvæmni er þetta. Við erum að tala um einfaldar staðreyndir. Það er verið að skila hér fjármálaáætlun með halla fram til ársins 2028. Það er áratugur af halla undir forystu þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki ég sem er að segja þetta. Það er ríkisstjórnin sjálf sem er að segja þetta. (Gripið fram í.) Og hvað segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn? Hann er aðeins bölsýni af því að hann trúir ekki beint á allar þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin er að setja fram og spáir núna 95 milljarða halla á meðan ríkisstjórnin er með 49. Ríkisstjórnin spáir 20 milljörðum í plús árið 2029 en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 95 milljarða halla. Svo kemur ráðherra og skammar okkur fyrir að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum. Það sem við erum að kalla eftir í Viðreisn eru aðgerðir. Hvernig á að fara betur með rekstur ríkissjóðs þannig að hann verði raunverulegur stuðningur við Seðlabankann til að hann geti lækkað vexti? Það er mesta kjarabótin fyrir íslensk heimili. Það kom mér ekkert á óvart (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra eyddi vart orðum á það í hvaða stöðu íslensk heimili eru. Sama hvaða glærukynningu ríkisstjórnin setur fram, (Forseti hringir.) það hjálpar ekki 70% heimila sem eru í miklum vanda, mjög miklum vanda, vegna mikillar verðbólgu og hárra vaxta (Forseti hringir.) sem eru alltaf þrisvar sinnum hærri, sama hvernig árar, heldur en m.a. í Evrópusambandinu.