154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:45]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar við högum hagstjórninni með þeim hætti að hér er fjárfest, hér verða ný störf til og við rekum nýsköpunarstefnu sem skapar nýjar stoðir fyrir útflutningsgeirann þá skapast verðmæti til að standa undir sameiginlegum verkefnum. Hallarekstur ríkissjóðs þessi misserin er ekki óeðlilegur vegna þeirra áfalla sem hér hafa dunið á. Má ég minna á Covid, heimsfaraldur sem gjörbylti stöðunni í ríkisfjármálum? Við höfum síðan sigrað allar áætlanir um það hvernig við myndum koma til baka. Þess vegna, með hagvextinum, eru skuldahlutföll ríkissjóðs hófleg og það er ekki áhyggjuefni við ákveðnar aðstæður að ríkissjóður sé rekinn í halla þegar við erum að styðja við hagkerfið með réttum hætti.

Varðandi stöðu heimilanna þá bara vek ég athygli hv. þingmanns á bls. 21 þar sem sýnt er hvernig Ísland hefur yfirburði yfir nágrannaþjóðirnar hvað kaupmátt heimilanna varðar, (Forseti hringir.) hvað fólk hefur milli handanna í lok mánaðar. Við erum að vinna það á alla mælikvarða samanborið við Evrópusambandsþjóðirnar sem hv. þingmaður vill líta til. Og sama á við um skuldir heimilanna. (Forseti hringir.) Þær eru hóflegar í samanburði við nágrannalöndin eins og dregið er fram hér, öfugt við það sem hv. þingmaður heldur fram.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða ræðutímann.)