154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæta hér til umræðunnar. Það eru nokkur atriði sem væri áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. forsætisráðherra um, sérstaklega í ljósi þess að ráðherrann hefur verið lengi í fjármálaráðuneytinu og þekkir vel til þar innan dyra. Í fyrri atrennu langar mig til að spyrja ráðherra í samhengi við orð hans áðan um að hann hefði áhyggjur af framboðshlið fasteignamarkaðarins, og ég held að menn almennt hafi það í dag, hvernig hafi til tekist m.a. með þá ákvörðun sem kom til framkvæmda í fyrra varðandi það að lækka endurgreiðsluhlutfall virðisauka af vinnu á verkstað við byggingu íbúðarhúsnæðis. Heldur ráðherrann að þetta gæti verið partur af þessu, auðvitað með fleiri breytum, og í hvora áttina telur hæstv. ráðherra að þessi ákvörðun virki eins og markaðurinn blasir við okkur í dag?

Sömuleiðis langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að nú er enn einu sinni verið að hnika til í tíma viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið. Það er búið að hnika henni svo oft til að hún fer sennilega rekast í Stellu þarna uppi í Bankastrætinu. Kemur hreinlega til greina að blása þessa byggingu af með það fyrir augum að menn byrji þá upp á nýtt einhvern tíma síðar með haganlegri byggingu sem fellur betur að umhverfinu sem þarna er og nærliggjandi byggingum?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hvort það megi lesa eitthvað í það að núna í ríkisstjórn sem formaður Sjálfstæðisflokksins fer fyrir séu ekki áform um neinar skattalækkanir næstu fimm árin eins og fjármálaáætlunin er sett fram. Nú blasir við að hún var í meginatriðum ef ekki öllum unnin áður en Framsóknarflokkurinn tók við lyklavöldum í ráðuneytinu.