154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:49]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Á húsnæðismarkaði er í raun og veru bara eitt vandamál. Það er framboðshliðin og á framboðshliðinni sýnist mér að við séum fyrst og fremst að glíma við það að það séu til staðar byggingarhæfar lóðir þar sem eftirspurnin er mest. Í sjálfu sér erum við ekki með sterk merki um að eftirspurnarhliðin hafi gefið eftir. Kaupmáttur hefur verið sterkur. Jú, vextir hafa auðvitað töluvert mikil áhrif, sérstaklega á greiðslugetu tekjulægri heimila og skilyrði sem sett hafa verið fyrir lánveitingum til tekjulágra eru að setja þeim heimilum ákveðnar skorður. En á móti kemur að það er nýtt fjármagn að fara bæði inn í hlutdeildarlánakerfið og almenna íbúðakerfið. Þannig að þegar spurt er hvaða áhrif breytingin á endurgreiðslum í virðisaukaskattskerfinu hefur haft þá held ég sem sagt að með því að afturkalla þá breytingu værum við kannski frekar að auka á eftirspurnarhliðina. Ég sé ekki að það myndi hafa mikil áhrif til þess að auka á framboðshliðinni. Mitt áhyggjuefni er annars vegar það að það séu til nægar byggingarhæfar lóðir fyrir fjölbreyttar tegundir húsnæðis, sem er auðvitað lykilatriði, og síðan er engum blöðum um það að fletta að á meðan vextir eru þetta háir er fjármagnskostnaður fyrir þá sem eru að byggja, sem tekur tíma, að draga úr vilja þeirra til að leggja af stað. Þetta eru tvær stóru áskoranirnar. Eitt merki sem við höfum líka er að það eru of fá sveitarfélög sem eru að skrifa undir rammasamningana sem innviðaráðuneytið hefur verið að leggja áherslu á. Ég held að það séu einungis þrjú sveitarfélög komin með staðfestan rammasamning. (Forseti hringir.) Það eru viss vonbrigði. Það er tregða á sveitarstjórnarstiginu hvað það snertir..