154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Mér heyrist nú áhyggjur markaðsaðila vera töluvert meiri af annars vegar vöxtunum og hins vegar þessu atriði sem snýr að endurgreiðslu virðisaukaskatts, það orsaki að þeir verktakar sem svigrúm hafa til hægi á framkvæmdum í stað þess að keyra þær áfram. En af því að hæstv. ráðherra gafst ekki tími til að koma inn á hinar tvær spurningar mínar þá ætla ég ekki að bæta við öðrum í seinna andsvari og spyr því aftur hvort það komi til greina að slá varanlega af áform um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið, sem hefur verið frestað ítrekað eða hliðrað til eins og það er kallað, og síðan hvað megi lesa í það að engar skattalækkanir séu áformaðar á þessu fimm ára tímabili fjármálaáætlunar undir forystu Sjálfstæðisflokksins nú en ekki Vinstri grænna eins og verið hefur undanfarin tæp sjö ár.