154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:53]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi skattbreytingar þá kannski bíður það næstu fjármálastefnu. Næsta fjármálastefna mun leggja grunninn að þeim áherslum sem verða á því kjörtímabili sem tekur við eftir næstu kosningar þannig að það var svo sem ekki við því að búast að þessi ríkisstjórn myndi tala djúpt inn í næsta kjörtímabil og fara að leggja í vinnu við að miðla málum um slíkar kerfisbreytingar. Ég hef hins vegar verið mjög skýr um það að verkefnið núna sé að ná góðu jafnvægi í ríkisfjármálin til þess að við getum síðan lækkað skatta í kjölfarið. Það hefur verið mín persónulega sýn.

Varðandi Stjórnarráðsbygginguna þá hefur henni verið frestað ítrekað, já. Ég hef engin áform uppi um að taka þá byggingu alfarið af dagskrá, enda verður það ekki til þess að leysa vissan húsnæðisvanda sem forsætisráðuneytið er í. Ráðuneytinu er dreift á margar hæðir í þremur ólíkum húsum og hugsunin var að koma ráðuneytinu á einn stað í einu húsi. (Forseti hringir.) Hvort það á endanum gerist á sama reitnum og hefur verið skipulagður eða hvort við horfum til Stjórnarráðsreitsins, sem ætti líka að gera, (Forseti hringir.) er eitthvað sem verður að koma betur í ljós. En Stjórnarráðsreiturinn stóri þarf auðvitað að byggjast upp (Forseti hringir.) og það er eitt af áherslumálum mínum að ýta við því máli til lengri tíma.