154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í þessu seinna andsvari mínu langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í hluti sem tengjast því að forsætisráðherra fer með formennsku í þjóðaröryggisráði. Eitt af þeim nýyrðum sem við erum búin að læra mikið af á þessu ári er orðið viðnámsþol, það hvernig við getum tekist á við áföll. Við höfum fengið að kynnast því hvernig náttúran getur haft mikil áhrif á líf okkar og hversu kostnaðarsamt það getur verið eins og við sjáum t.d. með Grindavík. Nú er það þannig að Grindavík og það sem er að gerast þar er ekkert endilega einsdæmi hér á landi. Það er fullt af vá víða um land og bara síðast í þessari viku hafði bæjarstjórn af Suðausturlandi samband við okkur þingmenn til að benda á það að þegar kemur að því að takast á við öryggi og annað þá eru flest okkar kerfi einungis miðað við þann íbúafjölda sem þar býr. Á sama tíma og það búa t.d. um 4.000 manns í sveitarfélaginu Höfn í Hornafirði, eða á þessu svæði á Suðvesturlandi, þá er þar gisting fyrir 5.600 ferðamenn. Það er því mikil vinna sem þarf að fara í, eins og að fara í gegnum viðbragðsáætlanir sem gera ráð fyrir miklu minni mannskap. Það var t.d. í viðbragðsáætlun fyrir Kötlu einungis gert ráð fyrir að rýma þyrfti alla bændur í burtu, en þarna geta verið 5.000 túristar á einum degi. Spurning mín er því: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að auka viðnámsþol landsins?