154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:57]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þessi verkefni blasa við okkur með allt öðrum hætti eftir að ferðaþjónustan hefur vaxið þetta mikið og það færir okkur heim áskoranir í samgöngumálum. Innviðirnir krefjast þess að meira sé fjárfest, eins og við erum að gera á flugvellinum, og við þurfum að fara að taka þetta með í reikninginn þegar almannavarnaástand getur skapast. Þetta er bara góð ábending hjá hv. þingmanni. Ég hins vegar held því til haga að það er allt annars konar verkefni að fást við að koma í skjól ferðafólki eða bregðast við því að íbúar landsins tapi húsnæði sínu og fjölskyldur eru með skólagöngu barna og atvinnumál í uppnámi eins og á við í Grindavík. Við þurfum, eins og ég hef hér verið að rekja í þessari umræðu um fjármálaáætlunina, að byggja upp viðnámsþol ríkissjóðs þegar vel árar og ég tel að við höfum gert það. Ég vísaði til þess í minni framsögu að það er hluti af þeirri langtímahugsun sem við verðum að tileinka okkur, að eyða ekki hverri krónu þegar vel árar vegna þess að við þurfum að geta brugðist við. Það er viðnámsþol ríkisfjármálanna sem er þar undir. Í kerfunum okkar hins vegar þurfum við að tryggja að við séum vel mönnuð, að við treystum ekki um of á hið mikilvæga sjálfboðaliðastarf sem Landsbjörg t.d. hefur með höndum, að við stöndum með þeirri starfsemi á meðan rólegt er þannig að til staðar séu tæki og mannskapur og þekking og geta þegar ástand skapast. Þetta hefur margítrekað sýnt sig, bæði í snjóflóðum og öðrum aðstæðum sem náttúruöflin hafa kallað yfir okkur. Hér þarf að vinna greiningarvinnu og vera með langtímaáætlanir þannig að það er erfitt að draga það fram í stuttu svari (Forseti hringir.) hvernig við nákvæmlega aukum viðnámsþrótt okkar og þol. Það þarf margvíslegar aðgerðir til þess.