154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Mig langar aðeins að snerta á þessu með að auka viðnámsþol ríkissjóðs. Þá langar mig að benda hæstv. ráðherra á það að fyrir nokkrum árum síðan lét Alþjóðabankinn nokkra Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði skrifa skýrslu sem sýndi fram á að allar fjárfestingar í forvörnum og í því að auka viðnámsþol vegna náttúruhamfara spöruðu, hver króna sparaði 6 kr. í viðbragði. Þannig að það borgar sig fyrir okkur að fjárfesta í viðbragði. Vandamálið okkar er að flestallar okkar viðbragðsáætlanir eru úreltar. Vandamálið er að það er ekki nægur mannskapur til að uppfæra þær vegna þess að þeir eru fastir í viðbragðinu við Grindavík. Að lokum: Ef slæmt ástand kemur upp hér þar sem tugir eða hundruð ferðamanna látast vegna eldgoss (Forseti hringir.) eða einhvers slíks þá mun það hafa mikil áhrif á ríkissjóð, jafnvel meiri en það að borga upp heilt sveitarfélag í tekjumissi.