154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég gerði eins og hæstv. forsætisráðherra benti mér á að gera og fór aftur á bls. 21. Ef það er eitthvað sem maður hefur lært á þessum sjö árum, og það undirstrikaðist eiginlega áðan, þá er það hvernig þessi ríkisstjórn, kannski út af þessum þrýstingi að halda alltaf þessa blaðamannafundi og glærukynningar, er alltaf að fikta í forsendum og breytum. Heimilin eru ekkert að skynja nákvæmlega þessa veislu sem er alltaf verið að tala um. En förum á bls. 21, í kaupmátt launa á samræmdan mælikvarða. Þar er verið að tala um kaupmátt launa á vinnustund, kaupmátt á hverja vinnustund. Vinnutímastyttingin hafði áhrif á hverja vinnustund en auðvitað hafði hún engin áhrif á heildarlaun eða kaupmátt heimilanna. 100.000 kallinn kom alltaf, þú varst bara styttri tíma að vinna þér hann inn. Heildarlaunin og kaupmáttur heimilanna er bara annað en kaupmáttur á hverja vinnustund, sem er skrifað svo smátt að maður sér það varla. Maður spyr af hverju alltaf er verið að reyna að afvegaleiða fólk og segja: Heyrðu, þið hafið það víst rosalega gott. Þið verðið að skynja þessa veislu sem er þarna úti. En 70% heimila skynja það ekki. Verðbólga og vextir hafa mjög mikil áhrif á stöðu heimilanna.

Síðan er það samræmda vísitalan. Þar er húsnæðisliðurinn ekki inni. Hvern er verið að blekkja? Hvern er verið að blekkja ef við erum ekki með húsnæðisliðinn þarna inni, sem núna er nýbúið að taka út? Síðan er verið að tala um skuldir í meðallagi og hóflegar í samanburði við nágrannalönd. Já, það getur vel verið að skuldir heimilanna séu í meðallagi, bara fínar, en það kostar miklu meira að skulda hérna á Íslandi. Seðlabankinn sjálfur viðurkennir það og eykur bindiskylduna bara af því að hann þarf að fjármagna dýran gjaldeyrisvaraforða upp á meira en 40 milljarða. Ríkissjóður er með 80 milljarða í vaxtagjöld. Í hvaða veruleika er ríkisstjórnin þegar hún talar með þessum hætti? (Forseti hringir.) Ég grátbið hæstv. ráðherra að fara að skynja þennan veruleika heimila landsins (Forseti hringir.) sem eru búin að taka 100 milljarða í yfirdráttarlán á 17% vöxtum. Það eru dulin vanskil (Forseti hringir.) samkvæmt umboðsmanni skuldara. Það verður að fara að hlusta á þetta.