154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:04]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skora bara á hv. þingmann að draga fram gröfin á sínum eigin forsendum sem sýna þessa mynd sem hv. þingmaður er að reyna að teikna upp, sem mér heyrist að eigi að segja söguna um Ísland þar sem kaupmáttur hefur vaxið minna heldur en t.d. á Norðurlöndunum. Þá mynd held ég að hv. þingmanni takist ekki að teikna upp. Allar forsendur liggja fyrir; kaupmáttur ráðstöfunartekna hér á landi hefur einfaldlega verið að vaxa meira en í öðrum löndum vegna þess að við höfum lækkað tekjuskatt og laun hafa hækkað mikið og verðlag hefur haldist stöðugt bróðurpartinn af þessu tímabili. Þegar við erum að ræða um skuldir heimilanna var í þessari tilteknu mynd verið að ræða um skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Það er bara stórmál þegar skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum lækka verulega eins og myndin sýnir. Jafnvel þótt um sé að ræða það ástand að vextir hafi verið hærri lengi á Íslandi heldur í nágrannalöndunum þá er fleira sem skiptir máli í þeim samanburði. Þar ber auðvitað fyrst að nefna að laun hækka meira á Íslandi en gerist að jafnaði á Norðurlöndunum. Það er íslenski veruleikinn. Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfum við að spyrja: Hvernig gengur íslenskum heimilum að ná endum saman? Hvaða hlutfall af ráðstöfunartekjum fer í húsnæðiskostnað hjá íslenskum heimilum? Hvernig lítur þessi mynd út í samanburði við önnur lönd? Það er auðvitað fleira sem spilar inn í þessa mynd, eins og t.d. hvernig atvinnustigið er o.s.frv. Og ég ætla bara að standa hérna og halda því áfram fram að það sé hvað best að búa á Íslandi af öllum löndum og að hér hafi orðið gríðarlegar framfarir í lífskjörum heimilanna. Þótt við í dag búum við verðbólgu þá hafa laun hækkað á þessum verðbólguárum umtalsvert og mörg heimili hafa getað nýtt sér úrræði sem hafa tryggt að greiðslubyrði (Forseti hringir.) hefur hækkað takmarkað. En það er hópur sem finnur verulega fyrir þessu og það eru skuldsett heimili, (Forseti hringir.) ungar fjölskyldur. Við höfum áhyggjur af stöðu þeirra og höfum verið að fylgjast með vanskilum (Forseti hringir.) sem enn til þessa hafa verið lág.