154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að taka eitthvað jákvætt út úr þessu og það voru kannski bara síðustu setningar hæstv. ráðherra þar sem hann opnaði allt í einu augun og eyrun fyrir því að það er jú þarna hópur, ungt fólk, sem á í erfiðleikum. Samkvæmt könnun eru þetta 70% millitekjuhóps og ungs fólks sem á í miklum og mjög miklum erfiðleikum við að láta heimilisbókhaldið passa núna á þessum viðvarandi verðbólgutíma, m.a. vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar og þessa háa vaxtastigs. Við erum að horfa upp á að nágrannalönd okkar, eins og Danmörk og Noregur, hafa verið með háa verðbólgu en bara í svo skamman tíma. Þetta er langur tími hjá okkur. Jafnvel mun þetta miðað við spár verða á þriðja ár sem þetta langa verðbólgutímabil verður þó að verðbólgan muni lækka eitthvað. Svo kemur alltaf þessi frasi, og við getum allt eins talað núna um hagvöxt, eins og þegar það er komið hér og rætt í þessu að hagvöxtur sé svo frábær hérna. En hagvöxtur á mann er minnstur innan OECD á Íslandi. Það er aldrei verið að segja (Forseti hringir.) hvernig myndin raunverulega er og það er það sem veldur mér áhyggjum, að finna ekki (Forseti hringir.) þessa raunveruleikatengingu ríkisstjórnar þegar við þurfum á því að halda að hún fari frá því að vera verkstola yfir í það (Forseti hringir.) að ganga í verkin. Þess vegna erum við að tala um að við þurfum starfhæfa ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem skynjar þennan raunveruleika sem íslensk heimili, 70% íslenskra heimila, búa við í dag.