154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:11]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að gera grein fyrir þeim málefnum og verkefnum sem heyra undir ráðuneyti mitt, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029.

Það fyrsta sem ber að nefna er stuðningur stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Hluti þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna kjarasamninga og fellur undir ábyrgðarsvið ráðuneytis míns miðar að því að treysta fjárhagslegt öryggi fjölskyldna.

Aðgerðir ríkisstjórnar til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf varða hámarksgreiðslu úr fæðingarorlofssjóði. Þar verða greiðslurnar hækkaðar í þremur skrefum. Sú fyrsta mun eiga sér stað og miða við þann 1. apríl í ár verði frumvarp mitt að lögum sem ég mælti fyrir í síðustu viku og hámarksgreiðslan fer þá úr 600.000 kr. í 700.000 kr. Frá og með 1. janúar 2025 hækkar greiðslan í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 verður hámarksgreiðslan 900.000 kr. Þessar aðgerðir verða til þess að framlag til Fæðingarorlofssjóðs hækkar um 8 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga hafa einnig í för með sér að hámarksgreiðslur úr ábyrgðarsjóði launa hækka. Sú hækkun tekur einnig gildi í þrepum. Fyrri hækkun mun eiga sér stað og miða við þann 1. apríl á þessu ári og greiðslan fara úr 633.000 kr. í 850.000 kr. Seinni hækkunin verður 1. janúar 2025 þegar hámarksgreiðslan mun hækka í 970.000 kr.

Einnig koma aðrar aðgerðir vegna vinnumarkaðar til framkvæmda á tímabili áætlunarinnar. Stefnt að því að auka í skrefum réttindi til sorgarleyfis frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp á Alþingi þess efnis á næsta löggjafarþingi með gildistöku frá og með árinu 2026. Á tímabili áætlunarinnar er einnig gert ráð fyrir auknum framlögum til vinnumarkaðsaðgerða svo hægt verði að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og til að efla úrræði fyrir fólk með mismikla starfsgetu. Unnið er að endurskoðun vinnumarkaðsúrræða fyrir fatlað fólk og fólk með mismikla starfsgetu í samvinnu ráðuneytisins og Vinnumálastofnunar og erum við að hefja samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks vegna þessa. Þessar aðgerðir eru mikilvægar til að styðja við þær breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem ég mælti fyrir hér á Alþingi fyrir páskana. Ráðgert er að auknar fjárheimildir komi til á tímabili fjögurra ára fjármálaáætlunar til þessara aðgerða og verði orðnar 900 millj. kr. til viðbótar við það sem þær eru í dag árið 2027.

Í febrúar síðastliðnum sammæltist ríkisstjórnin um stefnu í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, málefnum flóttafólks og innflytjenda. Á grundvelli þess verður tekið utan um málaflokkinn með heilstæðum hætti. Í ráðuneyti félags- og vinnumarkaðar verður á næstu árum unnið að nýrri löggjöf um móttöku og inngildingu flóttafólks í íslenskt samfélag. Stefni ég að því að koma með frumvarp á haustþingi hvað þetta varðar. Mikilvægt innlegg í mótun löggjafarinnar er fyrsta stefnumótunin í málefnum innflytjenda sem hefur verið unnið að á síðustu misserum en fyrsta skrefið var stigið með útgáfu stöðumats í grænbók í nóvember síðastliðnum. Ég stefni á að setja drög að stefnu í samráði við almenning núna í maí og koma með málið inn í þingið í haust. Í samræmi við heildarsýnina stendur til að auka stuðning við samfélagsfræðslu sem hluta af inngildingu í íslenskt samfélag, auk stuðnings á öllum skólastigum sem heyrir auðvitað undir mennta- og barnamálaráðherra. Samfélagsfræðsla miðar að því að auka þekkingu innflytjenda á tækifærum, réttindum og skyldum í íslensku samfélagi. Hér er íslenskt mál lykill að inngildingu og þátttöku í samfélaginu og verða innleiddir ýmsir hvatar til íslenskunáms.

Virðulegi forseti. Eitt af stóru verkefnunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eitt það stærsta sem hefur verið unnið í ráðuneyti mínu á kjörtímabilinu fjallar um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Ég mælti fyrir frumvarpi þess efnis á Alþingi 21. mars síðastliðinn. Fjármögnun kerfisbreytinganna er tryggð í gildandi fjármálaáætlun og er gert ráð fyrir gildistöku nýs kerfis þann 1. september 2025 eins og fram kemur í frumvarpinu sem ég mælti fyrir hér fyrir páskana. Umbylting þessa kerfis mun marka vatnaskil þar sem aukin áhersla verður á virkni fólks og tækifæri á vinnumarkaði fyrir þau sem hafa mismikla starfsgetu samhliða því að tryggja kjör þeirra sem ekki hafa kost á þátttöku í atvinnulífinu. Gert er ráð fyrir að útgjöld greiðslukerfis vegna örorku og endurhæfingar muni aukast um 18,1 milljarð kr. á ársgrunni við kerfisbreytinguna auk þess sem gert er ráð fyrir hátt í 900 millj. kr. til vinnumarkaðaðgerða og er virknistyrkur meðal þeirra aðgerða. Fjárveitingin þýðir að við getum gert kerfið einfaldara, við getum gert kerfið gagnsærra og við getum gert kerfið réttlátara og þannig stutt enn frekar við þau sem lökust hafa kjörin.

Ég er stoltur af þessari áherslu ríkisstjórnarinnar sem sýnir að forgangsraðað er í þágu einstaklinga sem hafa enga eða mismikla starfsgetu og hef ég trú á því að þetta verði ein af stærri kerfisbreytingunum á síðastliðnum árum sem draga mun úr fátækt á Íslandi.

Virðulegi forseti. Með breytingunum gefast mörg tækifæri til að veita einstaklingsmiðaða þjónustu auk þess sem efla á þjónustu er styður fólk til virkni, þar á meðal þátttöku á vinnumarkaði. Enn fremur er lögð áhersla á að greiðslukerfið verði þannig uppbyggt að það hvetji til atvinnuþátttöku. Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á valfrelsi þeirra einstaklinga sem nú eru með fullt örorkumat um það hvort þeir færist yfir í nýtt örorkulífeyriskerfi við upptöku þess eða ekki. Gert er ráð fyrir að öll færist yfir en geti óskað eftir nýju mati ef fólk kýs að gera slíkt.

Ég hlakka til umræðunnar hér við hv. þingmenn og lýk máli mínu í bili.