154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:17]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Fyrr á þessu ári kom út skýrsla frá forsætisráðuneytinu, og þó, það var í fyrra held ég, um fátækt á Íslandi sem unnin var að beiðni Alþingis. Þetta er mjög vönduð skýrsla og ég held að hún ætti að geta orðið okkur leiðarljós hér á Alþingi. Í skýrslunni kemur fram m.a. að hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hefur hækkað síðan ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við stjórnartaumunum árið 2017 og fátækt dýpkaði líka á sama tímabili samkvæmt þeim mælikvörðum sem lagðir eru til grundvallar afstæðri fátækt í skýrslunni. Þessi afstæða fátækt er auðvitað nátengd ójöfnuði, í rauninni ekki hægt að skilja það í sundur. Ég vil spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og þá sérstaklega í ljósi þess að núna er hann formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og einn af oddvitum flokkanna sem hafa starfað saman öll þessi ár: Eru þetta hæstv. ráðherra ekki vonbrigði? Hvað veldur þessu að mati hæstv. ráðherra? Hverjar eru skýringarnar á þessari þróun og að ekki hafi verið hægt að bregðast við og koma í veg fyrir það að hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum skyldi hækka svona á þessu tímabili?

Ég held að þetta sé ákveðin grundvallarspurning þegar við ræðum hér um fjármálaáætlun. Hvað segir þetta okkur um þá efnahags- og skattstefnu sem hefur verið rekin hér á vakt þessarar ríkisstjórnar? Hvað veldur þessu? Eru þetta ekki hæstv. ráðherra vonbrigði?