154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:19]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er rétt, þessi skýrsla kom út í fyrra og var ein af þeim skýrslum sem ég held að hjálpi okkur til að stíga markviss skref til að draga úr fátækt á Íslandi. Ég vil nefna að það eru auðvitað ákveðnir hópar sem eru verr staddir en aðrir og þar á meðal eru örorkulífeyrisþegar, innflytjendur og fólk sem oft er einstæðir foreldrar á leigumarkaði. Þetta eru þeir hópar sem við þurfum að horfa einna mest til og hér hefur auðvitað verið gripið til aðgerða á þessu sviði og við erum að grípa til aðgerða á þessu sviði. Ég vil nefna sérstaklega það sem snýr að örorkulífeyrisþegum en frumvarp mitt sem núna liggur fyrir Alþingi er mjög mikilvægt skref í að draga úr fátækt á meðal þess hóps og löngu tímabært að gera betur í þeim málaflokki. Ég vil meina að þetta frumvarp og það fjármagn sem fylgir því skipti hér miklu máli. Á sama hátt höfum við verið að beina okkar stuðningi, ég nefni nú bara síðast stuðningspakka ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga, til þeirra hópa sem kannski höllustum fæti standa, það er akkúrat fólk sem er á leigumarkaði, í gegnum hækkun á húsaleigubótum, með innspýtingu inn í almenna íbúðakerfið og með hækkun á barnabótum fyrir utan að gjaldfrjálsar skólamáltíðir munu draga úr fátækt barna. Það er einn sá mælikvarði sem mikilvægastur er og talið að það dragi einna mest úr fátækt barna að grípa til aðgerða sem slíkra.