154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:21]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ráðherra kom inn á húsnæðismarkaðinn og stöðu leigjenda sem er einmitt fjallað sérstaklega um í þessari skýrslu. Það er auðvitað ákveðin fylgni milli hækkunar húsnæðisbóta og leiguverðs og kannski þegar til lengdar lætur er til lítils að hækka mikið húsnæðisbætur án þess að tryggja einhverja lágmarksverðstýringu eða a.m.k. einhvers konar lágmarksréttarvernd fyrir leigjendur, varnir gegn hækkun leigufjárhæðar eins og raunar var lofað árið 2019 í lífskjarasamningunum en hefur ekki enn verið staðið við.

Hæstv. ráðherra kom inn á frumvarp sitt um breytingar á örorkulífeyriskerfinu og eins og hann nefndi og eins og við vitum þá hefur verið ákveðið að fresta gildistöku þess (Forseti hringir.) miðað við það sem áður var gert ráð fyrir þegar frumvarpið var í samráðsgátt og gert var ráð fyrir í síðustu fjármálaáætlun. Í þessari fjármálaáætlun er sú frestun (Forseti hringir.) kynnt sérstaklega sem aðhaldsaðgerð til að skapa svigrúm fyrir aðgerðir í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þannig er hlutunum (Forseti hringir.) stillt upp í þessari fjármálaáætlun. Hvað finnst hæstv. ráðherra um að hlutunum sé stillt upp með þessum hætti?