154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:23]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Mér finnst þessi framsetning ekki nægjanlega góð, ég segi það alveg eins og er, einfaldlega vegna þess að ástæðan fyrir því að við erum að fresta gildistöku örorkulífeyriskerfisfrumvarpsins er sú að það tekur tíma að innleiða breytingarnar. Ég veit að það er fullur skilningur á því. Við höfum rætt þetta í velferðarnefnd og það var einfaldlega þannig að Tryggingastofnun sem fer nú svona með stærstan hluta þessarar innleiðingar treysti sér einfaldlega ekki til að gera það á svona skömmum tíma og þess vegna tek ég bara undir með hv. þingmanni að þetta er kannski ekki alveg nógu góð framsetning í fjármálaáætlun, alla vega að mínu mati. En það er nú eins og það er. Við erum eftir sem áður að tryggja varanlega fjármuni í þessar kerfisbreytingar og það er það sem skiptir mestu máli. En það var óhjákvæmilegt að gera þetta með þessum hætti og auðvitað kemur fram í frumvarpinu sjálfu að gildistakan er áætluð 1. september 2025 þannig að það voru svo sem ekki ný tíðindi.