154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Eins og hefur komið fram þá er eitt aðalmál hæstv. ráðherra endurskoðun almannatrygginga, örorkuhlutans. Það er búið að fresta þessu frá 1. janúar til 1. september 2025 og það eru einhverjir milljarðar þar undir. Á sama tíma erum við nýbúin að fá kjarasamninga þar sem var samið um 23.000 kr. hækkun á mánuði. Ég fór aðeins að grúska í fjármálaáætlun og ég sé ekki neins staðar hækkun, hvorki að þessi launahækkun sem var samið um á vinnumarkaði eigi að skila sér til öryrkja né vísitöluhækkanir. Í umræðum við hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra kemur í ljós að það er eins og það eigi að nýta auknar lífeyrissjóðsgreiðslur til aukinna skerðinga til þess einhvern veginn að blöffa þetta út. Ég fór líka að tékka á því hvað öryrkjar eru með í dag og hvað þetta endurnýjaða kerfi á að skila til þeirra. Þegar ég fer að taka saman verðhækkanir, vísitölu- og launahækkanir, þá sé ég ekki annað en að það sé það sem eigi skila til öryrkja í þessari hækkun, það sé nokkurn veginn sú upphæð sem á að koma 1. september 2025. Ég spyr bara hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Er það alveg á hreinu að öryrkjar og aldraðir, þeir sem eru í almannatryggingakerfinu, eigi ekki að fá þessa launahækkun sem varð til fjögurra ára hjá launþegum núna strax, í fyrsta lagi um næstu áramót? Og er það hluti af þeim pakka sem á síðan að fara inn í endurskoðun almannatrygginga?