154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Aðeins varðandi endurskoðun örorkulífeyriskerfisins og gildistöku þeirra laga, verði frumvarpið að lögum, þá er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er í rauninni ekki hægt að ýta á undirbúningstakkann endanlega fyrr en fyrir liggur hvernig frumvarpið nákvæmlega mun líta út eftir afgreiðslu Alþingis. Þess vegna þarf ákveðinn tíma fyrir það, bara þannig að það komi fram hérna líka. Ég vil hins vegar benda á að þær upphæðir sem eru í frumvarpinu miðast við verðlag ársins 2024 og þá á auðvitað á næsta ári eftir að verðlagsbæta þær upphæðir allar með tilliti til þeirra breytinga sem munu verða um næstu áramót. Þannig að ef einhver upphæð er X núna þá verður hún verðlagsbætt um næstu áramót og hækkunin sem við erum að horfa á núna hlutfallslega jafn mikið. Það á allt að skila sér í bættum kjörum til örorkulífeyrisþega.

Varðandi verðlagsbætur inn í framtíðina þá er það það sem er alltaf um áramótin og var auðvitað um síðustu áramót þar sem tekið var tillit til verðbólgu á síðasta ári og væntrar verðbólgu á þessu ári, þannig að þær hækkanir eru búnar að koma fram. En ef þær eru bornar saman við þær launahækkanir sem urðu á almenna vinnumarkaðnum núna þá eru þær alla vega í einhverjum tilfellum eitthvað örlítið hærri eftir því sem ég kemst næst.